Málþingaröðin Á nöfinni – hugsað um framtíð kirkjunnar er haldin um þessar mundir í Neskirkju. Það er framtíðarhópur kirkjuþings sem stendur fyrir samtalinu. Föstudaginn 23. september verður verkefni Kjalarnessprófastsdæmis um Þátttökukirkjuna gerð skil í erindi sr. Kristínar Þórunnar Tómasdóttur héraðsprests.
Á nöfinni – hugsað um framtíð kirkjunnar er vettvangur fyrir spurningar um tengsl kirkju og samfélags, samskiptabyltinguna, hlutverk kirkjunnar í þróun samfélagsins og fleira er lýtur að framtíðarsýn þjóðkirkjunnar.
Úr erindi Kristínar Þórunnar: Þegar við tölum um þjóðkirkjuna sem þáttökusamfélag þýðir það tvennt, annað er einfalt og hitt róttækt. Það einfalda er að horfa á kirkjustarfið okkar í nýju ljósi og kalla hlutina það sem þeir eru. Til dæmis með því að orða þá staðreynd að þjóðkirkjan er stærsta sjálfboðaliðahreyfing á landinu. Það róttæka er uppstokkun kerfis og skipulags í kirkjunni sem miðar að því að gera þátttökukirkjuna sýnilega í kirkjusýn og kirkjuskipan, samkvæmt lútherskri guðfræði og kirkjuhefð.