Í Vídalínskirkju eru starfræktir tveir gospel kórar sem eru kenndir við engan annan en meistara Jón Vídalín, þann andans jöfur og merkisklerk. Það er líka magnaður andi sem svífur yfir vötnum þegar hlýtt er á nýjan geisladisk með kórunum sem ber nafnið Hallelujah Anyhow.
Á disknum er að finna nýrri og eldri gospellög í vönduðum útsetningum. Óhætt er að mæla með þessum hljómdiski því hann ber skemmtilegu og heilbrigðu trúar- og kirkjulífi unga fólksins í Garðabæ gott vitni.
Gospelkórinn var stofnaður haustið 2006 fyrir ungt fólk á aldrinum 16-30 ára. Hér er á ferðinni samstarfsverkefni Garðaprestakalls og Fjölbrautarskólans í Garðabæ. Starfið hefur tekist með miklum ágætum, en kórstarfið er valfag í FG og þau sem taka þátt fá tvær einingar sem nýtast öllum sem eru í framhaldsskólanámi.
Kórinn kemur fram einu sinni í mánuði á kvöldvökum í Vídalínskirkju þar sem hann syngur fyrir söfnuðinn og leiðir almennan safnaðarsöng. Einnig heldur kórinn tónleika í desember og að vori í hátíðasal Fjölbrautaskólans í Garðabæ ásamt því sem kórinn kemur fram við útskrift í FG. Stjórnandi kórsins er Ingvar Alfreðsson píanóleikari.
Allar frekari upplýsingar gefur sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðabæ.