Dr. Gunnar Kristjánsson, Kjalarnessprófastur vísiteraði Garðasókn í gær þann 5. nóvember. Vísitasían var vel heppnuð í alla staði og var Vídalínskirkja full af lífi þegar vísitasíufundur var við það að hefjast. Dr. Gunnar talaði í inngangi sínum að fundinum um eðli þjóðkirkjutrúarinnar sem sé hógvær trú, þar sem enginn greinarmunur sé gerður á stórri eða lítilli trú enda sé trú alltaf trú og réttilega boðin velkomin í þjóðkirkjunni án aðgreiningar. Þjóðkirkjan sé því ekki sértrúarflokkur sem aðgreini sig frá öðrum og slær sér á brjóst fyrir trúarhita sinn heldur samfélag sem sé tengist þjóðfélaginu á jafningjagrundvelli. Í þjóðkirkjuhugsuninni eigi að vera að finna róttækan samstarfsvilja og öfluga samvinnusækni við aðra hópa og stofnanir samfélagsins. Dr. Gunnar benti á það að í Garðasókn væri slíkt samstarf daglegur, lifandi veruleiki og vísaði þar til nýlegs dæmis um velheppnaða Stjörnumessu í Vídalínskirkju þar sem íþróttafélagið Stjarnan, hljómsveitin Pollapönk og Vídalínskirkja héldu saman guðsþjónustu þar sem 700 manns mættu. Á fundinum lýsti fundarfólk ánægju með starfið og starfsandann í Garðasókn. Að loknum fundi gaf Garðasókn Dr. Gunnari bók að gjöf sem þakklætisvott fyrir stuðning Kjalarnessprófastsdæmis við starfið en einnig sem virðingarvott við Dr. Gunnar sem þar var að vísitera söfnuðinn í síðasta sinn sem prófastur.