Létt var yfir fólki í Útskálaprestakalli þegar Dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur, vísiteraði söfnuðina í gær, þann 12. nóvember. Þar hefur verið mikið um að vera á Hallgrímsári enda hóf Hallgrímur Pétursson þar prestsskap sinn á sínum tíma. Að því tilefni hefur nú verið settur fallegur minnisvarði um Hallgrím við Hvalsneskirkju, unninn af Páli Guðmundssyni. Prófastur tók út minnisvarðann um leið og hann tók út kirkjuna og var virkilega hrifinn. Á sameiginlegum fundi sóknanna þakkaði prófastur síðan öllu því góða fólki sem hefur verið að vinna fórnfúst starf, bæði í Hvalsnessókn og Útskálasókn, og sagði gaman að sjá hversu vel öllu væri sinnt. Hann benti á að sumir hefðu starfað jafn lengi og hann sjálfur sem prófastur og jafnvel lengur og að alúð þeirra sæist á allri umgengni. Fólk þáði hrósið með þökkum og þakkaði jafnframt Dr. Gunnari samstarfið undanfarin 17 ár og leysti hann út með blómum. Það var viðeigandi enda var þetta síðasta formlega vísitasía hans í Útskálaprestakall sem prófastur.