Nóvember er bókamánuður í Kjalarnessprófastsdæmi. Á hverjum fimmtudegi í nóvember verður opið hús á skrifstofu prófastsdæmisins í Mosfellsbæ og dagskráin helguð nýútkomnum bókum. Fyrsta bókakaffið verður á morgun, 4. nóvember, þar sem spjallað verður um bókina Um Guð eftir sænska höfundinn Jonas Gardell.
Um bókina segir á heimasíðu útgáfunnar: “Urður bókafélag gefur út bókina Um Guð eftir sænska rithöfundinn Jonas Gardell. Í bókinni fjallar Gardell, sem í nær aldarfjórðung hefur verið einn allra vinsælasti rithöfundur og skemmtikraftur Svíþjóðar, um Gamla testamentið á sinn eigin hátt. Hvernig varð hugmyndin um Guð til? Hvernig getur Guð verið í senn kærleiksríkur og blóðþyrstur? Hvenær kom hugmyndin um eilíft líf fram? Hvað eru margar sköpunarsögur í Biblíunni? Allt eru þetta spurningar sem Gardell veltir upp og leitar svara við í þessari bók.“ Um Guð kom út í Svíþjóð árið 2003 og kemur nú út í íslenskri þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. Sr. Þórhallur Heimisson hafði forgöngu um að bókin var tekin til þýðingar hér á landi en Þórhallur er sóknarprestur í Hafnarfjarðarprestakalli í Kjalarnessprófastsdæmi.
Næsta bókakaffi prófastsdæmisins viku seinna verður helgað nýrri bók um gildi Íslendinga. Þá kemur Gunnar Hersveinn heimspekingur og spjallar um bókina sína Þjóðgildin.
Bókakaffi Kjalarnessprófastsdæmis er liður í fræðslu um trú og tilvist í menningunni og hvatning til samtals kirkju og þjóðar nú í aðdraganda aðventu og jóla.