Skip to main content

Yfirlitsræða prófasts á héraðsfundi

Eftir mars 10, 2011janúar 10th, 2020Fréttir

Mótlæti hefur aldrei dregið kjarkinn úr kirkjunni, sagan sýnir í reynd hið gagnstæða, mótlæti hefur ávallt orðið henni tilefni til siðbótar, til að líta í eigin barm og spyrja: hvað má betur fara hjá okkur, hvað getum við gert betur, hvernig snúum við vörn í sókn, hvernig verðum við betri kirkja, betri söfnuðir, trúverðugri fulltrúar Krists í þessum heimi?

Úr yfirlitsræðu prófasts á héraðsfundi Kjalarnessprófastsdæmis 9. mars.

Gunnar Kristjánsson prófastur Kjalarnessprófastsdæmis flutti yfirlitsræðu um starfið í prófastsdæminu við upphaf héraðsfundar sem haldinn var í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Garðasóknar 9. mars.

Góðir héraðsfundarfulltrúar, velkomnir til héraðsfundar Kjalarnessprófastsdæmis árið 2011.
Í upphafi vil ég nota tækifærið og þakka ánægjulegt leiðarþing og góðar móttökur í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju 6. október, sem var jafnframt framhald héraðsfundarins sem haldinn var í Strandbergi 7. apríl á síðastliðnu ári. Á báðum þessum fundum var glímt við niðurskurð á sóknargjöldum sem hafði bein áhrif á styrk héraðssjóðs. Kirkjustarf er því enn sem fyrr að glíma við minnkandi tekjur og ákveðið mótlæti sem því fylgir. Hins vegar hef ég ávallt haldið því fram að í mótlæti væru einnig tækifæri og talsverð gróska í kirkjustarfi á liðnu ári hefur sýnt að þau orð eiga við rök að styðjast. Á móti koma hins vegar áhyggjur margra sem starfa á vettvangi þjóðkirkjunnar vegna innri mála hennar og einnig vegna útkomu í skoðanakönnunum. Um það efni munum við fjalla nokkuð á þessum héraðsfundi.

Á fundum mínum síðastliðið vor og haust með sóknarnefndafólki og prestum var tekist sameiginlega á við þann margvíslega vanda sem blasir við íslensku þjóðkirkjunni og starfi safnaðanna. Eins og fram kemur í fundargerðum vilja söfnuðirnir styrkja starfið í heimabyggð og efla samstarfsvettvang til að mæta þrengri fjárhag. Sama niðurstaða var á leiðarþingi Kjalarnessprófastsdæmis síðastliðið haust. Hvarvetna varð sterkur og eindreginn vilji ofan á til þess að takast á við breytt starfsumhverfi með samstöðu og samvinnu. Það eru að mínum dómi hin réttu viðbrögð í kirkjustarfi þegar að þrengir. Hinu má þó ekki gleyma að okkar lútherski kirkjuskilningur og íslensk kirkjuhefð byggir á sjálfræði hvers safnaðar. Kirkjan er ekki eins og fyrirtæki eða stofnun sem lýtur miðstýringu frá höfuðstöðvum sínum um útibú vítt og breitt um landið. Engu er þó líkara en þannig mynd af kirkjunni hafi náð að skjóta rótum í hugum margra. Gagnstæð mynd er þó nær réttu lagi: kirkjan byggist á starfi einstakra safnaða, líf og starf hennar ræðst á vettvangi safnaðarins. Hver söfnuður er sjálfráður um eigið starf, um meðferð fjármuna, um ábyrgð á þeim boðskap sem honum er falinn í Heilagri Ritningu að boða “allt Guðs ráð” (Postulasagan 20.27), að vera Jesú Kristi til vitnis í orði og verki.

Hverri þjóð er hollt að horfa til róta sinna öðru hvoru og skoða eigin samtíma í spegli tímans. Á þessu ári minnist Háskóli Íslands aldarafmælis, þar sem guðfræðideildin var einn meginstofninn í upphafi og ein sterkasta uppistaðan í framsókn þjóðarinnar til menntunar og menningar, bæði í alþýðumenntun og æðri menntun. Nú eru aðrir tímar, staða guðfræði og kirkju er gjörbreytt. Þar vegur þyngst minnkandi samband við þjóðina og menningu hennar. Þar sem kirkjan var áður – og um aldir – burðarás menningar og þjóðlífs hafa aðrir rutt sér til rúms og þokað kristinni trúarmenningu til hliðar. Þess er hollt að minnast að kirkjan hefur um allar aldir verið samfélagsmótandi afl þar sem trúin hefur skilað sér í lífgildum og lífsgrundvelli einstaklings og samfélags. Á tímum mótlætis á kirkjan að sýna gildi þess boðskapar sem henni er trúað fyrir.

Nýlega rakst ég á athyglisverða klausu í sérstöku fermingablaði Vísis sem kom út fyrir nokkrum árum (1. apríl 1980), þar er að finna trúarmenningu Íslendinga í hnotskurn eins og hún birtist í viðtali við fullorðinn sjávarbónda á Stokkseyri, hann segir: „Við unglinga, sem eru í vafa um það, hvort þeir eiga að láta ferma sig vil ég segja, að það eigi þeir hiklaust að láta gera. Það eru margir, sem vilja lítið með trúna hafa og sýna þar tómlæti eða jafnvel lítilsvirðingu. En það koma þær stundir í lífi hvers einasta manns að hann kemst bókstaflega ekki af án þess að hafa trú. Ég hef hvað eftir annað séð að menn komast í þá aðstöðu að eiga það eitt eftir að biðja fyrir sér. Á sjó hef ég séð það, að þegar raunverulega reynir á, biðja þeir ekki síður fyrir sér sem annars þykjast vera trúlausir og tala um það, en hinir sem teljast trúaðir. Það kemur alltaf að því. Sjálfur finn ég styrk, sem ég get ekki verið án, í því að snúa mér til austurs á hverjum morgni og signa mig og fela mig almáttugum Guði, ljúka líka hverjum degi með því að fela mig Drottni. Þetta var ég alinn upp við, en það er ekki aðeins það. Án trúar er ekki hægt að vera, jafnvel þótt fólk haldi það“.

Fátt er kirkjunni dýrmætara en að eiga skapandi samtal við hefð sína og sögu sína en svo er henni hins vegar fátt þyngri byrði í farangrinum en fortíðardýrkun sem lokar augum hennar fyrir eiginlegu hlutverki sínu: að eiga samtal við líðandi stund, líðandi stund er vaxtarbroddurinn á langri sögu sem heldur áfram, ekki út óvissuna heldur inn í framtíð trúarinnar. Framlag kirkjunnar til líðandi stundar hlýtur því að birtast í skapandi safnaðarstarfi sem leiðir af sér hugsjónir sem miða að einu marki: að styrka vitund mannsins um líf sem hefur tilgang, sem hefur merkingu, um samfélag sem byggist á mannúð og réttlæti, á samhjálp og samvinnu. Trúarlíf og siðir breytast frá einni kynslóð til annarrar en hitt breytist ekki að hlutverk kirkjunnar er mikið og þangað er horft með væntingum sem engum mega bregðast.

Vondu dagarnir, svo vitnað sér til Prédikarans í Gamla testamentinu, hafa bæði fyrr og síðar kallað á djúpar hugsanir og harða glímu. Þá hefur kirkjan öðru fremur hugað að rótum sínum í þeim tilgangi að finna sjálfa sig aftur, ekki síst guðfræði sína og trúarskilning. Framtíðin á sér rætur og festu í fortíðinni. Jeremía spámaður greip til líkingar af þróttmiklu trénu þegar hann líkir hinum blessaða við tré sem teygir rætur sínar að læknum, sem er sígrænt og ber ávexti án afláts. Guðfræðin hefur ávallt fundið sjálfa sig að nýju þegar hún hefur teygt rætur sínar að læknum.

Að þessu ber að hyggja þegar á móti blæs. Það er kirkjunni lífsnauðsyn að takast á við vanda líðandi stundar með réttu hugarfari og með sterka sjálfsmynd sem hefur mótast í langri sögu hennar, sú saga sýnir máttinn sem henni er gefinn til að sigrast á mótlætinu.
Þannig blasa tímarnir við siðbótarmönnum allra tíma, einnig á okkar tímum. Þeir hafa ávallt orðið frumkvöðlar skapandi guðfræðihugsunar og opinnar kirkju með hugrekki til að vera í fararbroddi um samtal við menningu líðandi stundar og um mótun mannúðlegrar framtíðar fyrir einstaklinga og þjóð. Í orðum þeirra býr von og trú, réttlæti og mannúð, virðing fyrir sjálfræði mannsins og lýðræðislegu samfélagi. Allir eiga þeir eitt og sama markmið: að stuðla að trúarmenningu sem gerir sér far um að vera skapandi á tímum í þörf fyrir nýtt inntak.

Einn þeirra manna sem voru vakandi um þessa hlið kirkjustarfsins og áttu framsýni til að sjá yfir næsta hól var séra Bragi Friðriksson sem við minnumst nú með nokkrum orðum.

Látinna minnst
Séra Bragi Friðriksson prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi lést á Landspítalanum 27. maí 2010, 83 ára að aldri, en hann fæddist á Ísafirði 15. mars 1927. Foreldrar hans voru Ingibjörg Bjarnadóttir, húsfreyja á Sólvöllum í Mosfellssveit (1901- 1979) og Friðrik Helgi Guðjónsson, útgerðarmaður á Siglufirði (1901-1991).
Með andláti séra Braga Friðrikssonar hvarf af sjónarsviðinu einn þeirra leiðtoga íslensku þjóðkirkjunnar sem höfðu afgerandi áhrif á þróun hennar uppúr miðri tuttugustu öld. Hann kynntist nýjum áherslum í kirkjustarfi í prestsþjónustu sinni vestanhafs og gerði sér far um að koma þeim á framfæri hér á landi þegar hann tók við prestsþjónustu í Garðaprestakalli vorið 1966. Hann lagði áherslu á fjölþætt kirkjustarf, ekki aðeins í þrengri merkingu þess á vegum safnaðarins, heldur einnig á hinum breiða vettvangi samfélagsins. Þar var honum barna- og æskulýðsstarf hugleiknast og í því efni félagsstarf á breiðum grundvelli. Með skipan hans í embætti prófasts Kjalarnessprófastsdæmis 1977 opnaðist honum leið til aukinna áhrifa. Hann var frumkvöðull á vettvangi kirkjunnar til þess að efla prófastsdæmið á ný til fyrri virðingar sem virkrar samstarfsheildar þar sem söfnuðir á ákveðnu landssvæði þjöppuðu sér saman og fengust sameiginlega við verkefni sem voru þeim ofviða einum sér. Í þessum tilgangi beitti hann sér fyrir stofnun héraðsnefndar sem ætlað var forystuhlutverk í hinu nýja samstarfi og sömuleiðis setti hann á dagskrá stofnun héraðssjóða prófastsdæmanna. Tilgangurinn var að mynda nýja virka samstarfsheild innan þjóðkirkjunnar. Og það tókst. Hugmynd hans varð ekki aðeins að veruleika í Kjalarnessprófastsdæmi heldur í kirkjunni allri. Með þessu reyndist hann framsýnn eins og sagan hefur sýnt. Kjalarnessprófastsdæmi varð að þessu leyti til fyrirmyndar í kirkjustarfi, framsækinn samstarfsandi leikra og lærðra vann þrekvirki á mörgum sviðum sem telja má að aldrei hefðu verið unnin við óbreyttar aðstæður. Í hinni nýju skipan fengu leikmenn ný verkefni og þar með opnaðist þeim leið til nýrra áhrifa innan kirkjunnar. Í því efni var séra Bragi einnig framsýnn. Hann fylgdist vel með starfi safnaðanna vítt og breitt um prófastsdæmið. Hann lét sér annt um prestana og ekki síður sóknarnefndirnar og starfsfólk safnaðanna. Fyrir allt þetta ber að þakka. Séra Bragi var maður hins fjölþætta og blómlega kirkjustarfs. Hann var fulltrúi hinnar þjónandi kirkju sem hefur verk að vinna hvar sem þörfin er. Fyrir hönd Kjalarnessprófastsdæmis minnist ég séra Braga Friðrikssonar með þakklæti og virðingu. Starf hans bar mikinn ávöxt af því að það var unnið af heilum huga og einlægri trú. Eiginkona hans er Katrín Eyjólfsdóttir sem tók virkan þátt í störfum eiginmanns síns alla tíð og fylgdist af áhuga með kirkjustarfi á vettvangi prófastsdæmisins. Útför séra Braga var gerð frá Vídalínskirkju 8. júní 2010 að viðstöddu miklu fjölmenni.

Bjarni Jónsson fyrrverandi sóknarnefndarformaður í Keflavíkursókn lést í Víðihlíð í Grindavík 20. janúar 2011. Hann fæddist 7. júlí 1922, sonur Guðrúnar Eggertsdóttur (1898 – 1971) og Jóns Þorkelssonar (1896 – 1986) sem bjuggu í Kothúsum í Garði, þar sem Bjarni átti bernsku- og æskuár. Hann ólst upp í Garði, vann ungur við fiskvinnslu og útgerð. Sat skóla í Garði og síðan á Laugarvatni, stundaði nám í Iðnskóla Keflavíkur og lauk þaðan sveinsprófi 1952 og meistaranámi í húsasmíði 1955. Bjarni vann við umsjón húsnæðis og mannvirkja á Keflavíkurflugvelli 1948-1992, lengst af sem yfirverkstjóri við verklegar framkvæmdir. Eiginkona hans var Ásta Árnadóttir frá Landakoti í Sandgerði. Heimili þeirra var í Keflavík, lengst af á Skólavegi 26 en síðar á Aðalgötu 1. Bjarni var félagslyndur og jafnréttissinnaður maður, virkur þátttakandi í fjölmörgum samfélagsverkefnum, sat í sóknarnefnd Keflavíkurkirkju í 14 ár, þar af formaður í mörg ár. Þá var hann félagi í Karlakór Keflavíkur og formaður byggingarnefndar félagsheimilis kórsins. Útför Bjarna fór fram frá Keflavíkurkirkju 31. janúar 2011.

Ég bið Guð að blessa minningur þessara góðu samstarfsmanna okkar og farsæl störf þeirra á vettvangi kirkjunnar sem annars staðar. Við minnumst þeirra með því að rísa úr sætum.

Vísitasíur o.fl.
Þriðjudaginn 24. ágúst 2010 heimsótti ég Grindavík til þess að vísitera söfnuðinn. Vísitasían hófst á fundi með séra Elínborgu Gísladóttur sóknarpresti, Guðmundu Kristjánsdóttur formanni sóknarnefndar og Karítas Unu Daníelsdóttur safnaðarfulltrúa. Rætt var um kirkju og safnaðarheimili, kirkjugarð og jafnframt voru eigur safnaðarins kannaðar. Í því sambandi skoðaði prófastur munaskrá sem nýlega hefur verið gerð, þ.e.a.s. myndir af búnaði kirkjunnar, gripum og munum, ásamt lýsingum. Skráin er til fyrirmyndar, en þess má geta að við vísitasíur hef ég hvatt til þess að sóknarnefnd útbúi slíka skrá og hefur það verið gert víðar. Var síðan gengið um kirkju, safnaðarheimili og loks til kirkjugarðs. Ekki verður annað sagt en hvaðeina beri vitni um einlæga alúð við allt sem lýtur að umgjörð kirkjustarfsins. Um starfið er sömu sögu að segja. Í lok vísitasíugjörðar segir: „Prófastur fjallaði um framkvæmdir við kirkju og kirkjugarð og taldi að söfnuðurinn hefði stigið rétt skref í þeim málum og hvaðeina hefði vel tekist. Einnig fjallaði hann um starfið í söfnuðinum sem nær til yngri sem eldri og margir koma að starfinu sem er góðs viti. Þá fjallaði prófastur um samstarf sókna og prestakalla innan prófastsdæmisins og lagði áherslu á eflingu sjálfboðaliðastarfs en jafnframt á að launað fólk, með viðeigandi starfsmenntun og þekkingu, væri leiðandi á hinum ýmsu sviðum starfsins, með því ættu sjálfboðaliðar síðan að starfa. Prófastur lagði áherslu á að vandað væri til alls starfs á vegum kirkjunnar í hvívetna svo að það stæðist gagnrýni og jafnframt skyldi ávallt gæta þess að fjármunum væri vel varið. Umræður urðu góðar, prófastur þakkaði hlýjar viðtökur.“

Af prestsþjónustunni
Séra Kjartan Jónsson héraðsprestur hefur að hálfu leyti annast þjónustu í Tjarnaprestakalli með séra Báru Friðriksdóttur sóknarpresti frá miðju ári 2009. Prófastsdæmið gerði samning við Biskupsstofu um þessa þjónustu og hefur kostnaði verið skipt jafnt. Tilgangurinn með starfi séra Kjartans var að létta undir með sóknarpresti en þörfin á aukinni prestsþjónustu í Tjarnaprestakalli er brýn, frá miðjum janúar s.l. hefur hann verið í fullu starfi við afleysingu í veikindaleyfi séra Báru Friðriksdóttur. Á meðan er einn héraðsprestur að störfum í prófastsdæminu.

Á árinu var kosið til kirkjuþings, kosningu lauk 15. maí 2010 og hlutu þessir prestar kosningu: Skúli Sigurður Ólafsson og Elínborg Gísladóttir og þessir leikmenn: Ásbjörn Jónsson, Ragnheiður Ásta Magnúsdóttir og Magnús E. Kristjánsson. Ég óska þeim öllum velfarnaðar í vandasömu starfi kirkjuþingsmanna. Í kjöri til kirkjuráðs hlaut Ásbjörn Jónsson, sóknarnefndarmaður í Útskálasókn, kosningu. Hann er vel að henni kominn með margra ára fjölþætta reynslu af kirkjustarfi, bæði í sóknarnefnd, héraðsnefnd og sem kirkjuþingsfulltrúi í eitt kjörtímabil. Ég óska honum velfarnaðar í þessu mikilvæga embætti.

Námskeið, málþing og ráðstefnur
Héraðsnefnd gekkst fyrir ráðstefnunni Frjálslynd guðfræði í nýju ljósi í Reykholti í Borgarfirði dagana 20.-21. maí 2010. Þar var prófessor emeritus dr. Klaus-Peter Jörns gestur prófastsdæmisins og aðalfyrirlesari. Málþinginu var ætlað að skoða inntak þeirrar guðfræði sem liggur þjóðkirkjuhugsjóninni til grundvallar og jafnframt var hugað að endurvakningu þessarar hefðar í samtímaguðfræði og kirkjulífi. Málþingið var öllum opið og vel sótt af prestum úr Kjalarnessprófastsdæmi. Klaus-Peter Jörns er þekktur og eftirsóttur fyrirlesari, hann hefur ritað allmargar bækur um guðfræði samtímans. Hann var prófessor í praktískri guðfræði við Kirkjulega háskólann í Berlín á árunum 1981-1999 og jafnframt prófessor við guðfræðideild Humboldtháskóla í sömu borg, þar var hann einnig forstöðumaður stofnunar fyrir rannsóknir í trúarfélagsfræði.

Prédikunarseminar Kjalarnessprófastsdæmis var haldið í Skálholti 10.-12. október undir yfirskriftinni Jesús og jaðarfólkið. Þetta þema var tekið fyrir í fjórum prédikunum. Aðalfyrirlesari að þessu sinni var dr. Wilfried Engemann sem fjallaði í erindum sínum m.a. um mannskilning í málfari helgihaldsins og um list samtalsprédikunarinnar. Gestur kvöldstofu við arineld var Hilmar Örn Hilmarsson tónskáld og allsherjargoði ásatrúarmanna á Íslandi. Hann spjallaði við þátttakendur á prédikunarseminari um mannskilning og náttúru í trúarvitund ásatrúarmanna.

Dagana 16.-18. janúar s.l. efndi prófastur til fræðslunámskeiðs í Skálholtsskóla um Martein Lúther og áhrif hans. Einkum var fjallað um umbrotatíma siðbótarinnar í Mið-Þýskalandi á árunum 1517-1525 og varanleg áhrif sem þau höfðu á vestræna menningu. Þátttakendur nýttu þetta tækifæri til að setja sig inn í litríka sögu Lúthers og siðbótarinnar, sem mikilvægt er að rifja upp nú ekki hvað síst vegna þess að fimm alda afmæli siðbótarinnar nálgast; þess verður minnst í lútherskum kirkjum árið 2017 um víða veröld.

Notkun félagsmiðla í kirkjustarfi hefur aukist og þroskast síðustu misserin. Efnt var til námskeiðs um Facebook í kirkjustarfi í safnaðarheimili Lágafellssóknar föstudaginn 28. janúar, þetta var annað námskeiðið sem sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir og sr. Árni Svanur Daníelsson halda í prófastadæminu, hið fyrra var haustið 2009 í Vídalínskirkju.

Námskeið fyrir sóknarnefndir Kjalarnessprófastsdæmis í fjármála- og bókhaldslæsi var haldið 24. febrúar s.l. Markmið námskeiðsins var meðal annars að kynna grundvallaratriði, hlutverk og tilgang bókhalds, og að auka almenna þekkingu á fjármálum og hæfni til að stjórna þeim. Haukur Skúlason hagfræðingur og Kristján Pétur Kristjánsson viðskiptafræðingur hjá LS Credit ehf undirbjuggu námskeiðið sem var byggt á fyrirlestrum og umræðum þar sem efnið miðaðist við rekstur sókna.

Sjálfboðaliðaverkefni prófastsdæmisins var hleypt af stokkunum 17. nóv. 2009 skv. þessari bókun í fundargerð héraðsnefndar þann dag en þar segir: “Prófastsdæmið setur sjálfboðaliðastarf í kirkjunni á oddinn næsta ár.” Í framhaldi skipaði héraðsnefnd starfshóp til þess að huga að sjálfboðaliðastarfi innan safnaðanna, skýrsla um efnið var lögð fram á leiðarþingi s.l. haust og er að finna á heimasíðu prófastsdæmisins. Tillaga séra Kristínar Þórunnar Tómasdóttur um efnið var samþykkt á Kirkjuþingi haustið 2009. Eins og fram hefur komið var gert ráð fyrir stuðningi kirkjuráðs við verkefnið og á þeirri forsendu öðru fremur var þremur fulltrúum landsbyggðarinnar boðið að starfa með starfshópnum. Hópurinn fór í kynnisferð til Hannover í apríl 2010, þar sem hann fékk fyrirgreiðslu þeirrar stofnunar Evangelísku kirkjunnar í Þýskalandi sem fer með sjálfboðaliðastörf. Dr. Thies Gundlach, nú varaforseti kirkjuráðs Evangelísku kirkjunnar í Þýskalandi, greiddi götu okkar og fól séra Réne Lammer, starfsmanni kirkjunnar að undirbúa vandaða dagskrá og halda utan um hópinn allan tímann. Slíkar móttökur eru til fyrirmyndar. Var boðið upp á fyrirlestra fyrir hópinn dagana 10.-15. apríl, en jafnframt var farið í heimsóknir í söfnuði og stofnanir. Allt þetta – að ógleymdum samtölum við fólk í þessum störfum – kemur vonandi til með að skila árangri í Kjalarnessprófastsdæmi og í þjóðkirkjunni allri. Þessu verkefni þarf að halda áfram, í því efni hvet ég ekki hvað síst kirkjuþingsfulltrúa okkar til dáða á hinum breiða vettvangi kirkjunnar. Þess má geta í þessu samhengi að Kjalarnessprófastsdæmi gekkst fyrir ráðstefnu um sjálfboðaliðastörf með ýmsum aðilum í Skálholti árið 1998 undir yfirskriftinni Að gefa vinnu sína, erindi frá þeirri ráðstefnu voru gefin út en upplagið er löngu þrotið.

Fundir
Eins og endranær á prófastur fjölda funda þar sem fjallað er um starf presta og safnaða en einnig ytra starfið, tengingu þess við stofnanir samfélagsins og við kirkjulegar stofnanir. Auk funda héraðsnefndar vil ég nefna hér þá fundi sem eru fastir liðir í þessu samhengi, það eru fundir með prestum og djáknum, með sóknarnefndarformönnum og með organistum. Allir þessir fundir skipta miklu máli fyrir samstarfið í prófastsdæminu, fyrir mótun starfsþátta, þróun hugmynda, úttekt á stöðu mála og almenn skoðanaskipti um kirkjustarf.

Páskafundur prófasts með prestum og djáknum var haldinn miðvikudaginn 24. mars 2010 í Kirkjuhvoli, Garðasókn. Á fundinum var rætt um: a) prédikanir við fermingar, í dymbilviku og um páska b) sameiginleg verkefni í prófastsdæminu c) kirkjuþingskosningar sem þá stóðu fyrir dyrum d) sumarleyfi og afleysingar e) fermingarfræðslu og fermingarathafnir.
Vorfundur prófasts með prestum og djáknum Kjalarnessprófastsdæmis var haldinn í safnaðarheimili Hafnafjarðarkirkju, Strandbergi, 4. maí 2010.
Vorfundur sóknarnefndarformanna með prófasti var haldinn í Strandbergi 5. maí.
Haustfundur prófasts með formönnum sóknarnefnda og gjaldkerum var haldinn í safnaðarheimili Víðistaðakirkju 7. september 2010. Á fundinum var lögð áhersla á umræður um fjármál safnaðanna.
Haustfundur prófasts með prestum og djáknum var haldinn í safnaðarheimili Lágafellssóknar fimmtudaginn 9. september 2010.

Árlegur aðventufundur prófasts með prestum og djáknum þar sem jólatextarnir voru krufnir, var haldinn í Esjustofu á Kjalarnesi 3. desember 2010. Þetta er ómissandi undirbúningur vegna jólaprédikananna. Gestur fundarins var Pétur Gunnarsson rithöfundur.
Á aðventunni efndum við til þeirrar nýbreytni á skrifstofu prófastsdæmisins að bjóða til bókakaffis, höfundum nýrra bóka var boðið til að kynna verk sín og síðan fóru fram umræður. Þetta mæltist vel fyrir og er full ástæða til að halda þessu áfram á jólaföstu sem ber svo mikinn keim af bókum og bókaútgáfu.

Fundur organista með prófasti var að þessu sinni haldinn 24. febrúar 2011 í safnaðarheimili Víðistaðakirkju. Fjallað var um stöðu kirkjutónlistarmála í prófastsdæminu og heima í söfnuðunum. Sérstaklega var hugað að þróun sálmasöngs og kirkjutónlistar í kirkjulegum athöfnum, svo sem við úfarir og hjónavígslur. Rætt var um þróun sem hefur orðið í skipulagningu þessara athafna þar sem fólk virðist í vaxandi mæli upplifa kirkjuna sem þjónustustofnun og telur eðlilegt að nálgast kirkjulegar athafnir út frá eigin sjónarhorni ekki síður en því sem hin kirkjulega hefð og regla segir fyrir um. Helgisiðir og það sem fram fer þarf að eiga tengipunkt við menninguna og það sem fólk þekkir, þar er tónlistin ekki undanskilin. Þess ber hins vegar einnig að gæta að kirkjulegar athafnir fara fram á ábyrgð prestsins og í almennum athöfnum er mikilvægt að hvaðeina sé í samræmi við inntak og eðli athafnarinnar. Prestar og organistar – sem samstarfsmenn þeirra – gegna hér því hlutverki að leiða og fræða. Rætt var um helgisiði og um sálmana og hlutverk þeirra í nútímasamfélagi þar sem vaxandi ókunnugleiki um kirkjutónlist fer vart framhjá neinum. Þá var rætt um greiðslufyrirkomulag og umbunarkerfi auk ýmissa annarra mála sem varða tónlist og helgihald. Sú hugmynd kom upp að prófastsdæmið standi fyrir námskeiði í tónlistarsköpun að hausti.

Útgáfur
Endurskoðað fermingarhefti Kjalarnessprófastsdæmis kom út á s.l. ári. Í því er fjallað um Faðir vor, trúarjátninguna og boðorðin tíu. Um er að ræða vandað og handhægt kennsluefni sem samanstendur af fróðleik og verkefnum. Fermingarbarnið er hér í forgrunni, leitast er við að tengja Faðir vor, trúarjátninguna og boðorðin tíu við reynsluheim þess með þessu hefti. Nú eru væntanlegar kennsluleiðbeiningar sem ætlað er að gera notkun þess aðgengilegri.

Erindi frá ráðstefnunni í Reykholti, sem áður er getið, voru gefin út sérhefi tímaritsins Glímunnar sem er óháð tímarit um guðfræði og samfélag eins og segir í ritinu. Heiti tölublaðsins er “Frjálslynd guðfræði í nýju ljósi.”
Einnig gaf prófastsdæmið út erindi og prédikanir frá prédikunarseminarinu í Skálholti s.l. haust. Reynslan sýnir að það efni skilar sér enda er tilgangurinn að stuðla að símenntun presta á vettvangi prédikunarfræði.

Heimildarkvikmyndin Liljur vallarins eftir Þorstein Jónsson var frumsýnd í Bíó Paradís 14. okt. 2010. Í kynningu segir að þar “sé fjallað um stóru spurningarnar í lífinu. Hún fjallar um Guð, tilgang lífsins og hvernig menn eiga að haga lífi sínu. Glímt er við spurningarnar í raunverulegu umhverfi í fámennri sveit, þar sem sköpunarverkið blómstrar.” Í kynningu segir ennfremur að myndin sé tekin “í Kjósinni, sem er 200 manna sveitasamfélag í skjóli við Esjuna, þar er fjallað um þjóðfélagslegar hugmyndir sóknarprestsins og tengingu þeirra við kenningu Jesú frá Nasaret og boðskap Biblíunnar.” Og svo er spurt: “Getur presturinn hjálpað sóknarbörnunum að verða betri manneskjur? Eflir trúin virðingu manna fyrir sköpunarverkinu og góðu mannlegu samfélagi?” Gerð myndarinnar var styrkt af kvikmyndasjóði Íslands gegn framlagi frá Kirkjuráði sem óskaði fyrir sitt leyti eftir framlagi frá héraðssjóði Kjalarnessprófastsdæmis sem var veitt 5. feb. 2008. Þess má geta að heimildarkvikmyndin er eina kvikmynd sinnar tegundar um íslenska trúarmenningu í lífi einnar sóknar, þar er ekki átt við kirkjulíf í þrengri merkingu heldur áhrif trúarinnar á líf og störf, viðhorf og lífsgildi fólksins, þriggja ára vinna kvikmyndagerðarmannsins liggur í gerð kvikmyndarinnar. Fyrir þetta á Þorsteinn Jónsson heiður skilinn en hugmynd og efnistök eru að öllu leyti hans verk.1

Annað
Menningardagur Kjalarnessprófastsdæmis var að þessu sinni haldinn á siðbótardaginn 31. október 2010 en áhugi á menningardeginum var eindreginn á haustfundum með sóknarnefndarformönnum, gjaldkerum og prestum. Hugmyndin að baki deginum var sem fyrr að laða fólk í kirkjuhúsið og vekja athygli á starfi safnaðanna. Það var eins og áður á valdi hvers safnaðar fyrir sig hvort og hvers konar dagskrá hann bauð upp á. Að þessu sinni ákvað héraðsnefnd að ráða starfsmann í tvo mánuði til að annast verkefnið, fyrir valinu varð Ármann H. Gunnarsson djákni, sem er starfinu í prófastsdæminu að góðu kunnur þar sem hann starfaði í Garðasókn um nokkurra missera skeið, hann stundar nú háskólanám í menningarmiðlun.

Kóradagur í Kjalarnessprófastsdæmi. Laugardaginn 5. febrúar 2011 var haldinn Kóradagur prófastsdæmisins þar sem fjölmargir kirkjukórar stilltu saman strengi í æfingum og tónlistarflutningi í Víðistaðakirkju. Kórarnir ásamt prófasti stóðu síðan fyrir tónlistarhelgistund í kirkjunni. Deginum lauk með sameiginlegu borðhaldi og skemmtikvöldi í Strandbergi. Kóradagurinn er ávallt mikill tónlistarviðburður í prófastsdæminu og reynslan af honum hefur sýnt fram á mikilvægi samstarfs safnaðanna á þessu sviði. Kórastarf er víða með miklum blóma í kirkjunum og er þátttaka í kirkjukór sjálfboðaverkefni sem auðgar þátttakendur og gæðir kirkjuna lífi. Tónlistarnefnd Kjalarnessprófastsdæmis hafði veg og vanda af undirbúningi en í nefndinni sitja Bjartur Logi Guðnason, Arngerður María Árnadóttir og sr. Bragi J. Ingibergsson.

Meðal nýjunga í kirkjustarfi prófastsdæmisins var jóladagatalið á heimasíðu okkar í fyrsta sinn. Þetta var reyndar þriðja árið í röðinni sem jóladagatalið var birt á kirkjan.is en í ár kom Kjalarnessprófastsdæmi í fyrsta sinn að gerð þess, auk þess sem það var með nýju sniði og byggðist upp á stuttum myndböndum. Að þessu sinni var vonin þema dagatalsins og komu fram allmargir einstaklingar, leikir og lærðir, vítt og breitt að úr þjóðfélaginu og tjáðu sig um vonina í örstuttu máli. Kristín Þórunn Tómasdóttir, héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi og Árni Svanur Daníelsson, verkefnisstjóri á Biskupsstofu. Eiga þau heiður skilinn fyrir þetta góða framtak sem hlaut verðskuldaða athygli.

Lokaorð
Góðir héraðsfundarfulltrúar. Ekki verður annað séð en fjölbreytni í kirkjustarfi fari vaxandi. Í fréttatilkynningum frá söfnuðum prófastsdæmisins er boðið upp á hefðbundna starfsþætti en einnig nýja, þar má nefna hjólreiðamessu, U2 messu, jógaslökun og fyrirbænarþjónusta fyrir konur, kristna íhugun, skapandi tónlist með fermingarbörnum, fyrirlestraraðir um fjölmörg efni, trúarbragðaskóla, prjónaklúbb svo eitthvað sé nefnt. Þeim mun fjölbreytilegri sem tilboð safnaðarins eru þeim mun fleiri finna þar eitthvað við sitt hæfi, þeim mun fleiri eiga þá leið í safnaðarheimilið eða kirkjuna, þeim mun fleiri verða þá virkir þátttakendur í starfi kirkjunnar. Í reynd skortir ekki áhuga sóknarbarnanna, heldur oftar en ekki hugmyndaflug þeirra sem leiða starfið, djörfung til að fara nýjar leiðir, úthald til að komast yfir fyrsta hjallann. Safnaðarstarf lýtur mörgum þekktum lögmálum. Íslenska þjóðkirkjan er komin af byggingarstiginu þegar á heildina er litið, inn á vettvang hins eiginlega safnaðarstarfs. Þróun þess verður að mínum dómi meginviðfangsefni okkar næstu árin. Í því efni hefur átak Kjalarnessprófastsdæmis við að leggja grunn að nýrri hugmyndafræði sjálfboðastarfs komið í góðar þarfir. Fjölbreytilegt safnaðarstarf er nafnið tómt byggist það ekki á virkri þátttöku fólks vítt og breytt að úr söfnuðinum.
Hafa ber í huga við alla þróun í starfi safnaðanna að fyrir hendi er sterk trúarmenning með þjóðarinni sem á sér djúpar rætur. Sú trúarhefð birtist ekki í kirkjusókn eða virkri þátttöku í kirkjustarfi heldur í lífsviðhorfi. Ekki er sjálfgefið að hvaðeina sem miðar að betri kirkjusókn sé æskilegt til safnaðaruppbyggingar í lútherskum þjóðkirkjusöfnuði, hér er oft þörf á meiri vandvirkni í undirbúningi en við fyrstu sýn kann að virðast.

Hitt er svo annað mál að helgihaldið skiptir ekki síður máli en hið almenna, fjölbreytilega safnaðarstarf. Reynslan er reyndar sú að leiðin til helgihaldsins liggur iðulega um hið fjölbreytilega safnaðarstarf inn í helgidóminn en ekki öfugt. Það mótlæti sem margt kirkjunnar fólk skynjar í samfélaginu er vissulega fyrir hendi, þar eru fjárhagsáhyggjur sókna ofarlega á blaði um þessar mundir, einnig oft neikvæð umfjöllun um þjóðkirkjuna og skoðanakannanir sem virðast í það minnsta við fyrstu sýn ekki uppörvandi. Einu skulum við ekki gleyma á tímum mótlætis, það er að horfa í eigin barm og gera enn betur en áður.

Mótlæti hefur aldrei dregið kjarkinn úr kirkjunni, sagan sýnir í reynd hið gagnstæða, mótlæti hefur ávallt orðið henni tilefni til siðbótar, til að líta í eigin barm og spyrja: hvað má betur fara hjá okkur, hvað getum við gert betur, hvernig snúum við vörn í sókn, hvernig verðum við betri kirkja, betri söfnuðir, trúverðugri fulltrúar Krists í þessum heimi?

Þannig viðhorf leiðir til þess að horft er til eigin verka en þó öðru fremur til hans sem vakir yfir kirkju sinni, til Jesú Krists með bæn um betri kirkju, um trúverðugri kirkju, um betra starf, um meiri gleði í starfi, um sannfæringu í hjarta sem ekkert mótlæti fær sigrað. Þannig hefur mótlætið ávallt orðið til að endurskapa kirkjuna og efla hana til nýrra dáða. Látum það einnig sannast í okkar kirkju, á okkar tímum, í okkar starfi.

_____________________________