Leikmannastefna var haldin í Keflavíkurkirkju um helgina. Við upphaf stefnunnar flutti dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi, ávarpið Á tímamótum sem hefur nú verið birt á Trú.is. Þar ræðir hann um stöðu kirkju og þjóðfélags og fjallar um eðli íslenskrar trúarmenningar og rætur hennar í siðbótarhreyfingu Marteins Lúthers.
Hann segir meðal annars:
Sú trúarhugsun sem Íslendingar búa að er lúthersk í sínu innsta eðli vegna þess að hún tekur leikmanninn alvarlega eins og hann er. Hún tók húsbóndann alvarlega og fól honum húspostilluna í hendur, hún tók móðurina alvarlega og fól henni trúaruppeldi barnanna, sömuleiðis afann og ömmuna, hún tók kennarann alvarlega og fól honum dýrmætt hlutskipti í okkar samfélagi, hún treysti yfirvaldinu, stjórnmálamanninum til góðra hluta (og gerði hann í reynd að „neyðarbiskupi“ í upphafi siðbótartímans á meginlandinu), hún treysti hreppstjóranum til að vísitera með prófastinum hverja sókn landsins um aldir. Þannig mætti lengi telja. Hér er dýrmæt trúarmenning, ég nota það orð: trúarmenning, því að trúin á sér menningu og menningin á sér djúpar rætur í trú þar sem sjálfsskilningur mannsins ákvarðast endanlega, þar sem svörin við dýpstu spurningum hans ráðast.
Og:
Við þurfum ekki hókuspóskumeistara sem segjast geta snúið heiminum til trúar á nokkrum dögum. Við þurfum að þekkja okkar eigið fólk, sýna þjóðinni traust, trúnað og virðingu, leyfa henni að finna að það eru gleðidagar í trúarsamfélaginu, það eru líka gleðidagar í mótlætinu því að trúnni fylgir alltaf gleði, einnig í sorginni, sem undirstraumur. Trúin er það sem gefur lífi mannsins merkingu, það er mesta gleðin sem hver maður getur óskað sér í þessum heimi, þá er hver dagur hátíð.
Leikmannastefna samþykkti tvær ályktanir: