Kirkjuráð starfar í þremur aðalnefndum; löggjafarnefnd, allsherjarnefnd og fjárhagsnefnd. Sr. Skúli Ólafsson var fulltrúi í fjárhagsnefnd og hann tók nokkra punkta saman sem innihalda skilaboð fjárhagsnefndar til kirkjuráðs og biskups Íslands:
„Fjárhagsnefnd beinir eftirfarandi til kirkjuráðs og biskups Íslands:
1. Að fram fari fram heildarmat á stefnu og starfsáherslum þjóðkirkjunnar 2004 -2010 og að framtíðarsýn þjóðkirkjunnar verði endurskoðuð.
Hópurinn var sammála um það að viðbrögð kirkjunnar við þrengingum eru ekki nógu skýr. Mikilvægt er að ákvarðanir fylgir stefnu eða sýn og að hver aðgerð sé hluti af stærri heild. Við teljum eðlilegt að endurskoða stefnumálin til framtíðar í ljósi nýrra aðstæðna.
2. Að stjórnskipulag þjóðkirkjunnar verði endurskoðað út frá heildarstefnu um þjónustu kirkjunnar. Þar verður gegnsæi og skilvirkni að vera í fyrirrúmi og skýr ábyrgð í fjármálum. Þetta á ekki síst við á sviði sóknanna og prófastsdæmanna. Auka þarf fræðslu um stjórnun og skipulag og efla fjárhagslegt eftirlit í kirkjunni. Horft verði til þess að einfalda skipurit í stjórnsýslu kirkjunnar með ofangreind markmið að leiðarljósi.
Eins og fram kom í erindi mínu á málþinginu um þjóðkirkjuna og lýðræði í ágúst 2009 er löngu tímabært að skoða sóknir kirkjunnar enda hafa þær safnað miklum skuldum og engin yfirsýn er yfir það hvernig þessm 2ma. sem renna um hendur sóknarnefnda er varið. Hið sama gildir um prófastsdæmin. Sú mikla reynsla sem er til staðar innan eininga kirkjunnar nýtist ekki nema á afmörkuðum vettvangi. Til þess að mæta þessu þarf að auka fræðsluna og halda betur utan um þessa sérhæfðu þekkingu. Skipulag kirkjunnar þarf að einfalda svo ljóst sé hver gegnir hvaða hlutverki. Eftirlitshlutverkið lýtur ekki aðeins að fjárhagslegum hagsmunum. Það er siðferðislegt – nú á tímum uppsagna og niðurskurðar.
3. Að fjárhagsáætlun verði gerð til næstu þriggja ára með það að markmiði að jafnvægi ríki í fjármálum kirkjunnar. Áætlunin verði í tengslum við skipulag sem greint er frá í 2. lið.
Jafnvægi í fjármálum kirkjunnar merkir einfaldlega að sú ráðstöfun að selja eignir og ganga á ábyrgðarsjóði er ekki framtíðarlausn. Hún er eingöngu til þess að mæta brýnni fjárhagsþörf – þar sem sparnaður vegna uppsagna kemur ekki fram fyrr en síðar. Fjármálahópurinn lýsir þeim vilja að rekstur kirkjunnar sé ekki fjármagnaður með þessum hætti. Kirkjuþing staðfesti þetta.
4. Að mótuð verði fasteignastefna þjóðkirkjunnar.
Enn kveður við sama tón. Skýra þarf hvaða eignir er ástæða til þess að eiga/selja/kaupa. Þetta verður að vera gert með þeim hætti að unnt sé að bera ákvarðanir saman svo réttlæti og hagsýni ráði.
5. Að hvatt verði til þess að sóknir og/eða prófastsdæmi sameinist um verkefni eins og aðstæður leyfa til hagræðis og sparnaðar t.d. í reikningshaldi, innkaupum o.fl.
Þetta er í þeim anda sem samþykktur var um sameiningu prófastsdæma og samstarfssvæði.
6. Vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á sóknargjöldum er lagt til að kirkjuráð hafi forystu um að fulltrúar sóknanna fari á fund fjárlaganefndar Alþingis til þess að upplýsa þingmenn um alvarlega fjárhagsstöðu þeirra.“