Á pálmasunnudag verður mikið um að vera í Reynivallaprestakalli, þegar biskup Íslands vísiterar söfnuðina í Brautarholtssókn og Reynivallasókn.
Biskup Íslands hóf vísitasíu sína í Kjalarnessprófastsdæmi á Bessastöðum og með þátttöku á héraðsfundi prófastsdæmisins í nýliðinni viku. Á næstu vikum mun biskup heimsækja sóknir, kirkjur og samfélög, í fylgd með prófasti og föruneyti, frá Kjós og suður á nes.
Á pálmasunnudag hefst dagskrá í Brautarholtskirkju kl. 11 með helgistund. Þar verður upplestur, bæn og tónlist. Sóknarpresturinn sr. Gunnar Kristjánsson segir frá kirkjustarfinu og biskup Íslands ávarpar söfnuðinn og býður til samtals að því loknu.
Kl. 14 er guðsþjónusta á Reynivöllum. Agnes biskup og sóknarprestur þjóna. Kirkjukór Reynivallasóknar syngur og Páll Helgason leikur á orgel.
Að messu lokinni bjóða sóknarnefndir prestakallsins til kirkjukaffis í Félagsgarði þar sem biskup flytur ávarp.
Kl. 17 verður stutt innlit í Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi.
Viðburðir vísitasíunnar eru öllum opnir.