Á níunda prédikunarseminari Kjalarnessprófastsdæmis í Skálholti er boðunin tekin föstum tökum. Um 30 prestar, guðfræðingar og guðfræðinemar ætla að nota tvo daga til að nema það nýjasta í prédikunarfræðum, miðla af eigin sýn og reynslu í prédikunargerð og íhuga stöðu orðsins í samfélaginu.
Seminarið byggist upp á erindum og umræðum um þemað „Fólkið í guðsþjónustunni – litlu minna en Guð“ en þar er hugsunin sótt í 8. Davíðssálm sem segir í 6. versi: Þú gerðir hann litlu minni en Guð, krýndir hann hátign og heiðri“. Wilfried Engemann, prófessor í praktískri guðfræði við hásólann í Vín flytur erindi um guðfræði og mannfræði prédikunarinnar og hina pólitísku prédikun.
EInnig flytja fjórir prestar prédikanir sem síðan verða rýndar og ræddar eftir sérstöku skema sem tekur til innihaldsþáttar prédikunarinnar annars vegar og samskiptaþáttar prédikunarinnar hins vegar. Efni þessara prédikana er myndin af Jesú í altaristöflum í sóknarkirkjunum þeirra; Dómkirkjunni, Bessastaðakirkju, Ísafjarðarkirkju og Stafholtskirkju.
Rúsínan í pylsuendanum á þessu seminari er erindi Guðmundar Andra Thorssonar rithöfundar, sem ætlar að ræða við kirkjunnar fólk um stöðu orðsins og prédikunarinnar í samfélaginu. Guðmundur Andri er þekktur fyrir skrif sín í fjölmiðlum um málefni líðandi stundar og hefur skýra sýn á hlutverk þess sem þannig talar inn í samfélagið.
Hér má sjá dagskrá daganna í Skálholti.
Boðun kirkjunnar hvílir ekki síst á prédikun prestanna. Guðfræði hennar er metin eftir því hvernig prédikað er um stóru atriðin í lífinu, þau sem leysa og frelsa og þau sem kreppa og beygja. Ástin, syndin, frelsið og trúin eru því í fókus þessa daga í Skálholti.