Bókamánuðurinn nóvember heldur áfram í Kjalarnessprófastsdæmi. Fimmtudaginn 18. nóvember kemur dr. Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor í heimsókn og spjallar um tvær nýútkomnar bækur sínar.
Önnur bókin er Út í birtuna – hugvekjur í máli og myndum, sem bókaútgáfan Salka gefur út. Arnfríður skrifar hugvekjur út frá nokkrum textum Biblíunnar sem búa yfir hvatningu til okkar um að halda ótrauð áfram, út í birtuna, til móts við nýjan dag. Myndirnar í bókinni eru eftir listakonuna Æju (Þóreyju Magnúsdóttur).
Hin bókin er gefin út af Oxford University Press og ber titilinn Meeting God on the Cross – Christ, the Cross, and the Feminist Critique. Í henni beitir höfundur gagnrýni kvennaguðfræði á guðfræði krossins, sem þrátt fyrir að hafa verið beitt til að tala reynslu kvenna niður, setur skýrt fram mynd af Jesú sem boðar hinum fátæku og undirokuðu fagnaðarerindið og er þannig uppspretta lausnar og lækningar fyrir konur og karla sem þjást.
Áður hafa bækurnar Um Guð eftir Jonas Gardell og Þjóðgildin eftir Gunnar Hersvein verið ræddar á bókakaffi Kjalarnessprófastsdæmis, sem er haldið á skrifstofu prófastsdæmisins að Þverholti þrjú, kl. 11-12 á fimmtudögum í nóvember.