Skip to main content

Beðið fyrir kirkju og þjóð á krossgötum

Eftir maí 9, 2012janúar 10th, 2020Fréttir

Hinn almenni bænadagur er að venju haldinn 5. sunnudag eftir páska, sem nú er hinn 13. maí. Á hinum almenna bænadegi er löng hefð fyrir því að söfnuðir landsins sameinist um eitt fyrirbænarefni. Að þessu sinni er yfirskrift bænadagsins: „Biðjum fyrir kirkju og þjóð á krossgötum.“

Í bréfi til safnaða þjóðkirkjunnar segir biskup Íslands meðal annars:

Bið ég presta og söfnuði þjóðkirkjunnar að sameinast um þetta bænaefni og lyfta fram starfi og þjónustu kirkjunnar í nærsamfélaginu og ábyrgð alls safnaðarfólks á því að kirkja og kristni viðhaldist í landinu. Þegar þrengir að í fjármálum safnaðanna hefur verið treyst á vilja fólks og samtakamátt til að sýna það í verki að því þyki nokkurs til um að sóknarkirkjuna og þá iðkun og orð sem þar er til boða.

Framtíð þjónustu og starfs kirkjunnar á landsvísu og í nærsamfélaginu er vissulega háð því hverjir eru í forystu kirkjunnar, hvernig kirkjumálum er og verður skipað í löggjöf landsins, ákvörðunum stjórnvalda, fjármálasamskiptum ríkis og kirkju og tekjustofnum safnaðanna. En umfram allt er það í hendi þess fólks sem sinnir málum kirkjunnar á vettvangi safnaðanna, og uppeldi í bæn og trú á heimilunum, þar sem sagan af Jesú er sögð og kennd, bænaorð eru lögð á varir og hjörtu, trúin og vonin og kærleikurinn er rótfest og rækt og virðingin fyrir því sem heilagt er. Helgidómarnir í bæjum og borgum, til sjávar og sveita landsins, eru hluti þess samhengis. Framtíð kirkjunnar er háð því að það rofni ekki.

Biðjum fyrir kirkju og þjóð á krossgötum.

Sameinumst í fyrirbæn fyrir nýkjörnum biskupi Íslands, séra Agnesi Sigurðardóttur, um leiðsögn, styrk, visku og náð í lífi hennar og þjónustu. Biðjum fyrir biskupskjöri í Hólaumdæmi og þeim sem að því koma. Biðjum fyrir söfnuðinum og nærsamfélaginu í byggðum landsins, biðjum fyrir þátttöku og samfélagi, að Drottinn veki unga sem gamla til ábyrgðar á því að kristni viðhaldist í landinu og fagnaðarerindi Krists nái að festa rætur í hjörtum uppvaxandi kynslóðar.

Nánar á kirkjan.is.