Í gær, þann 11. nóvember, vísiteraði Dr. Gunnar Kristjánsson, Kjalarnessprófastur, Grindavíkursókn. Vel var tekið á móti Gunnari og hófst vísitasían í kirkjugarðinum þar sem prófastur skoðaði viðbætur. Í Grindavíkurkirkju var kirkjan tekin út og síðan rætt um framkvæmdir, breytingar og safnaðarstarf. Ljóst var af öllu að málefni kirkjunnar eru í góðum höndum í Grindavík. Eftirvænting var fyrir aðventunni enda verður margt á döfinni í tengslum við kirkjuna þá. Má þar sérstaklega nefna fyrsta sunnudag í aðventu þar sem jólaljósin í kirkjugarðinum verða formlega tendruð eftir helgistund. Einnig verður mikil blys-friðarganga sem mun ganga um bæinn og enda í kirkjunni og síðan spennandi tónleikar sem nú þegar er uppselt á. Og er þó ekki allt talið.