Skip to main content

Farskóli leiðtogaefnanna fer af stað

Eftir september 30, 2011janúar 10th, 2020Fréttir

Farskóli leiðtogaefna sem hefur unnið sér fastan sess í leiðtoganámi kirkjunnar hefur nú göngu sína að nýju. Námskeiðið er miðað við áhugasama unglinga á aldrinum 15-17 ára sem aðstoða í starfi eða hafa hug á að starfa með börnum og/eða unglingum innan kirkjunnar.
Tuttugu og fimm ungmenni útskrifast úr Farskóla leiðtogaefna

Verkefnið er samstarf Æskulýðsnefnar Kjalarnessprófastsdæmis, ÆSKR, Biskupsstofu og ÆSKÞ. Markmið með farskóla leiðtogaefna er að undirbyggja faglegt starf með hæfum og góðum leiðtogum í barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Viðfangsefni námskeiðsins er m.a. fræðsla um kristna trú, kirkjuna, starf hennar og fleira.  Um leið og áhersla er lögð á að sinna hverjum þátttakanda og uppbyggingu hvers og eins er mikið lagt upp úr því að skapa gott samfélag í hópnum, meðal annars með áherslu á helgistundir.

Farskólinn er ætlaður sem stuðningur við söfnuðina í því að byggja upp leiðtoga og því er mikilvægt að samhliða farskólanum sé leiðtogaefnunum sinnt af þeim sem bera ábyrgð á æskulýðsstarfi í söfnuðinum og að þeim séu falin verkefni við hæfi í starfinu svo þau fái þjálfun í sínum heimasöfnuði samhliða námskeiðinu.

Námskeiðið er fyrir unglinga sem starfa í kirkjum í Reykjavíkur- og Kjalarnesprófastsdæmum og flyst á milli þeirra kirkna sem þátttakendur koma frá. Þær kirkjur sem senda leiðtogaefni á námskeiðin þurfa því að vera tilbúnar að vera með eina samveru.

Starfsmaður námskeiðsins heldur utan um námskeiðið og sér um fræðsluna. Æskulýðsfulltrúar, prestar eða djáknar viðkomandi kirkju taka þátt í stundinni eftir þörfum.

Kennsluefninu er skipt upp í A og B hluta og er gert ráð fyrir að hvor hluti taki eitt ár í yfirferð. Ekki skiptir máli hvor hlutinn er tekinn á undan en æskilegast er að þátttakendur taki báða hluta námskeiðsins.

Námskeiðið hefst 5. október kl.18.00 í Grensáskirkju. Leiðbeinandi er Sigríður Rún Tryggvadóttir guðfræðingur og framkvæmdarstjóri ÆSKÞ. Þátttökugjald fyrir hvern þátttakanda á námskeiðinu er óbreytt frá síðustu árum, eða 13.500.- kr.

Kennslan fer öllu jafna fram á miðvikudagskvöldum en auk þess verður gist yfir nótt í kirkju á haustönn, aðstoðað í Hjálparstarfinu í desember og langur laugardagur í janúar. Mætingarskylda er á námskeiðinu.

Skráningar fara fram hjá Kristínu Arnardóttur á fræðslusviði Biskupsstofu í síma 5284065 eða á netfangið kristin.arnardottir@kirkjan.is .

Síðasti skráningardagur er mánudagurinn 3. október.