Á næstu vikum munu 717 börn í söfnuðum Kjalarnessprófastsdæmis stíga fram, krjúpa við altarið og staðfesta að þau vilji leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Börnin munu fermast í 52 messum í kirkjum í Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ, Kjós, á Kjalarnesi og Suðurnesjum. Yfir 3000 börn fermast árlega í söfnuðum Þjóðkirkjunnar.
Börnin hafa í vetur sótt fermingarfræðsluna í kirkjunum sínum, þar sem m.a. er fjallað um kristna trú, tilgang lífsins og kristna von, hjálparstarf, vináttu, sorg, gleði og kærleika margt fleira. Hæst ber fermingarferðlagið í Vatnskóg á haustin með uppbyggilegum samverustundum, leikjum og fræðslu. Þá tóku börnin þátt í sérstöku fræðsluverkefni um kærleika í verki og stóðu síðan að söfnun í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar fyrir uppbygginu vatnsbrunna í Afríku. Fermingarbörnin gengu í hús og gáfu fólki kost á að leggja að mörkum. Fermingarbörnin ásamt fjölskyldum sínum eru virk í kirkjustarfinu, sækja helgihaldið, fræðast um helgisiði og táknmál trúarinnar og njóta kyrrðar og friðar í samfélagi kirkjunnar. Í fræðslunni er lögð áhersla á að gefa börnum rými til að styrkja sjálfsmynd og fái gott veganesti til aukins þroska og sjálfstæðis í samfélagi samferðafólks á vegferð sinni inn í framtíðina.
Fermingin er falleg tímamót, þar sem ástvinir samfagna og þakka í fyrirbæn með fermingarbarninu í trú, von og kærleika. Þá er hátíð.