Skip to main content

Fólkið í guðsþjónustunni – litlu minna en Guð?

Eftir september 27, 2011janúar 10th, 2020Fréttir

Mannskilningur í helgihaldi og prédikun er viðfangsefni níunda prédikunarseminars Kjalarnessprófastsdæmis í Skálholti. Segja má því að guðfræði og mannfræði leiði saman hesta sína í prédikunum og fyrirlestrum í Skálholti 9.-11. október n.k.

Luther preaching

Yfirskrift prédikunarseminarsins er Fólkið í guðsþjónustunni – litlu minna en Guð? Wilfried Engemann prófessor heldur þrjú erindi og stjórnar einnig prédikunarvinnustofu. Fyrsta erindið tekur á sjálfri guðfræði prédikunarinnnar. Annað erindið beinir sjónum að mannfræðinni sem liggur til grundvallar í prédikuninni, þ.e. hvaða mannskilningi og manngildi er miðlað. Þriðja erindið tekur á hinni pólitísku prédikun og þegar prédikunin gerir málefni opinberrar umræðu að viðfangsefni sínu. Í vinnustofunni verða sérstaklega skoðaðir biblíutextar sem varðveitir mannskilning sem er viðeigandi í prédikun í kristinni guðsþjónustu.

Að vanda flytja fjórir prestar prédikanir sem síðan verða greindar og ræddar í hópnum. Í þetta sinn verður prédikað út frá myndinni af Jesú í okkar eigin kirkjum. Hvernig birtist Jesús í altaristöflum í Ísafjarðarkirkju, Dómkirkjunni, Bessastaðakirkju og í Stafholtskirkju? Við heyrum hugleiðingar sóknarprestanna á þessum stöðum um efnið. Í viðbrögðum og umræðum verður stuðst við greiningarskema sem notað hefur verið með góðum árangri á fyrri seminörum.

Samtalið við arineldinn á mánudagskvöldið verður við Guðmund Andra Thorsson, rithöfund. Hann miðlar okkur af sýn sinni á orðsins list í samræðum dagsins í dag.

Prédikunarseminar Kjalarnessprófastsdæmis 2011 er haldið í samstarfi við Skálholtsskóla og Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Um aðalfyrirlesarann Wilfried Engemann
Wilfried Engemann (f. 1959) hefur gengt prófessorsembætti í praktískri guðfræði við Wilhelmsháskólann í Münster í Þýskalandi en er nú á leið til Vínar þar sem hann tekur við prófessorsembætti á sama sviði. Sérsvið hans er prédikunarfræði, sálgæslufræði og litúrgískar rannsóknir. Engemann hefur skrifað mikið um prédikunarfræði og bók hans Einführung in die Homiletik (Inngangur að prédikunarfræði) er kennd við nánast alla þýska háskóla.

Nýjasta bók hans (2010) fjallar um mannskilning í tungumáli helgihaldsins. Engemann hefur þrisvar áður verið gestur á prédikunarseminari Kjalarnessprófastsdæmis, árin 2005, 2008 og 2010. Erindin sem hann flutti þá, hafa verið gefin út af Kjalarnessprófastsdæmi.
Erindunum verður dreift í íslenskri þýðingu til þátttakenda í seminarinu.

Skráning og upplýsingar
Nánari upplýsingar gefa prófastur og héraðsprestur Kjalarnessprófastsdæmis. Skráning fer fram í Skálholtsskóla í síma 486 8870 eða á www.skalholt.is.

X