Skip to main content

Fræðslunámskeið um Martein Lúther

Eftir janúar 4, 2011janúar 10th, 2020Fréttir

Dagana 16.-18. janúar 2011 verður haldið fræðslunámskeið um Martein Lúther og áhrif hans í Skálholtsskóla. Námskeiðið fjallar um umbrot siðbótartímans í Mið-Þýskalandi á árunum 1517-1525 og þau varanlegu áhrif sem þau höfðu á vestræna menningu.


Á þessum fáu umbrotsárum mótuðust meginlínur í hugsjónum siðbótarmanna sem breiddust um álfuna eins og eldur í sinu og höfðu mikil áhrif, síðar vestanhafs og víðar. Hugað verður að þeim jarðvegi sem siðbótin spratt úr, menningarlega, kirkjulega og pólitískt. Gerð verður grein fyrir helstu valdastofnunum samtímans og afstöðu siðbótarmanna til yfirvalda. Kenningar siðbótarmanna verða skoðaðar frá ýmsum sjónarhornum og fjallað um túlkun þeirra í bókmenntum og listum.

Námskeiðið verður í sex meginþáttum: a) pólitísk umbrot siðbótartímans, b) helstu hugsjónir Lúthers og siðbótarmanna c) bændauppreisnin og áhrif hennar, d) kenning Lúthers um frelsi mannsins og samviskuna, e) myndlist siðbótartímans og inntak hennar, f) áhersla Lúthers á hið talaða og ritaða orð. Myndefni verður talsvert og bent verður á lesefni til undirbúnings.

Námskeiðið er hugsað fyrir þá sem vilja kynna sér það tímabil sem sagnfræðingar í evrópusögu hafa gjarnan nefnt „gróskumesta tímabil í sögu Evrópu“ (Joseph Rovan). Árið 2017 verða liðin 500 ár frá upphafi siðbótar Lúthers.

Námskeiðið er ætlað þeim sem vilja fá undirstöðufræðslu um Lúther og lútherska trúarhefð, guðfræðingum sem öðrum.

Kennari verður Gunnar Kristjánsson, dr. theol.

Námskeiðið hefst sunnudaginn 16. jan. kl. 17 og lýkur á hádegi 18. janúar 2011. Heildarverð með gistingu og fullu fæði er aðeins 29.000.- kr.

Skráning fer fram í Skálholtsskóla í síma 486 8870.

X