Næstkomandi sunnudag verður efnt til óvenjulegrar guðsþjónustu suður með sjó. Hjólað verður á milli kirkna á utanverðum Reykjanesskaganum og á hverjum stað verður einn liður messunnar fluttur.
Í fréttatilkynningu frá sr. Skúla Ólafssyni sóknarpresti í Keflavík segir: Hópurinn safnast saman við Keflavíkurkirkju þar sem upphafsbæn verður flutt og sunginn sálmur. Að því loknu verður hjólað sem leið liggur út í Útskálakikrkju þar sem pistlar dagsins verða lesnir og sálmur sunginn. Þaðan verður haldið í Hvalsneskirkju þar sem guðspjall verður lesið, sungið og hugleiðing flutt. Frá Hvalsnesi hjólar hópurinn eftir nýmalbikuðum vegi inn í Hafnir, þar sem Kirkjuvogskirkja verður heimsótt. Á þeim stað fer bænahald fram… já og sálmasöngur! Loks endar hópurinn í kapellu Keflavíkurkirkju til söngs og blessunar. Nesti verður snætt á þessum stöðum eftir behag en hjólreiðamenn taki allt eldsneyti með sér. Leiðin eru rúmir 40 km. og er gert ráð fyrir því að dagskrá ljúki á fimmta tímanum. Hjólreiðamessa þessi er til minningar um sr. Eirík Brynjólfsson sóknarprest á Útskálum sem þjónaði þessum kirkjum á sínum tíma og notaðist hann m.a. við hjólhest í embættisferðum sínum.