Í Vídalínskirkju í Garðabæ er að hefjast nýjung í safnaðarstarfi á Íslandi sem sprettur upp úr bænahópi kvenna í kirkjunni. Bænahópurinn hefur verið starfræktur í tvö ár en í haust var ákveðið að þróa bænastarfið áfram og finna leiðir til að bjóða fleiri konum í hópinn.
Í Vídalínskirkju í Garðabæ er að hefjast nýjung í safnaðarstarfi á Íslandi sem sprettur upp úr bænahópi kvenna í kirkjunni. Bænahópurinn hefur verið starfræktur í tvö ár en í haust var ákveðið að þróa bænastarfið áfram og finna leiðir til að bjóða fleiri konum í hópinn, að sögn sr. Jónu Hrannar Bolladóttur sóknarprests.
„Anna Ingólfsdóttir jógakennari hefur verið með djúpslökun fyrir fólk sem er að ganga í gegnum sorgarferli við Vídalínskirkju. Hún var tilbúin að fara inn í þetta verkefni í samstarfi við sóknarprestinn og bænahópinn. Nú hefur verið ákveðið að bjóða öllum konum að koma á þriðjudögum kl.17:30 til 18:30 inn í Vídalínskirkju til jógaslökunar og fyrirbæna“ segir Jóna Hrönn.
Fríða Gísladóttir myndlistarkona hefur hannað svolítið umgjörðina þegar komið er að kirkjunni og inn í kirkjunni sjálfri.
Jógaslökunin fer þannig fram að að fyrst er gengið inn kirkjuna í þögn og konur geta sest við bænastjakann í kirkjunni og skrifað niður bænarefnin sín, eða gengið inn í litla kapellu við hliðar við kirkjuskipið og lagt þar fram bænarefnin sín. Þá er náð í teppi, kodda og dýnu og fundið sér staður í kirkjunni eða tekið teppi og komið sér fyrir á kirkjubekknum. Kl.17:45 hefst jógaslökun í umsjá Önnu sem lýkur kl.18:15 og þá fer sóknarpresturinn fyrir altarið með bænaefnin á meðan konurnar liggja og slaka á.
Kl.18:30 er risið á fætur og gengið aftur út í hversdaginn.
Sr. Jóna Hrönn segir að Yoga Nidra sé nokkurs konar slökunarsvefn þar sem athyglinni er haldið vakandi. „Farið er inn í slökunina eftir ákveðnum fyrirmælum. Allir vöðvar líkamans eru slakaðir niður, hugurinn verður hljóður og tilfinningarnar kyrrast. Þannig er „ég-vitundin“ lögð til hliðar. Þá er manneskjan komin í djúpt slökunarástand og upplifir andartakið eða núið án þess að það sé truflað af hugsunum, tilfinningum eða þessari „ég-vitund sem er sífellt að kalla á eitthvað sem hún vill fá. Sem sagt, ótruflað andartak í kyrrð. Áfram eru ákveðin fyrirmæli gefin og ímyndunarmyndir notaðar til þess að skoða bæði þægilegar og óþægilegar myndir sem geta vakið upp minningar, en leitast er við að bjóða þessar myndir velkomnar og horfa á þær hlutlaust með vakandi athygli, án þess endilega að flækja sig í minninguna sem þær vekja. Ef það gerist þá að leyfa sér að horfa á það með hlutlausri athygli og leitast við að láta tilfinninguna um minninguna ekki ná yfirtökum. Í stuttu máli er þetta upplifun á hreinu og tæru núi, í kyrrð, sem þú ert sjálf vitni að.“
Kjalarnessprófastsdæmi styrkir þessa nýjung í safnaðarstarfinu í Garðabæ, sem er vonandi komið til að vera.