Á tímum erfiðleika og niðurskurðar megum við ekki missa sjónar á því sem skiptir öllu máli. Stærsta auðlind kirkjunnar er fólkið sjálft.
Á leiðarþingi Kjalarnessprófastsdæmis sem haldið var í liðinni viku, flutti sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, ræðu sem fjallaði meðal annars um erfiðleika sem blasa við söfnuðum landsins. Í máli sínu lagði sr. Kristján Valur áherslu á að við yrðum að vera raunsæ og horfast í augu við ástandið eins og það er en líka missa ekki sjónar á því sem skiptir öllu máli.
Sr. Kristján Valur sagði m.a. í máli sínu:
Það eru sannarlega erfiðleikar í hinu ytra, en það er engum erfiðleikum bundið það sem skiptir öllu máli: að vera kirkja. Að vera sjálfur kirkja, og eiga samfélag sem er kirkja.
Stærsta auðlind hvers safnaðar er fólkið sjálft og trú þess, trúariðkun og trúaráhugi. Og sú auðlind verður ekki tæmd, og ekki skattlögð.
Vandinn sem við glímum við er samsettur úr mörgum einingum sem birtast á mismunandi hátt í lífi safnaða og einstaklinga.
Hvernig bregðumst við við?
Fyrst með því að finna hvar við erum sterk. Og svo:
- með því að greina vandann og vera samtaka í því að fást við hann.
- með því að leita ekki lausnanna hjá öðrum, heldur hjá okkur sjálfum.
- með því að standa vörð um þau grundvallargildi sem við viljum varðveita í okkar eigin lífi og í heimasöfnuðinum.
- með því að einbeita okkur að nærsamfélaginu, og þar með okkar eigin söfnuði og okkar eigin kirkju en eyða ekki mikilli orku í meint mistök kirkjustjórnarinnar og ríkisstjórnarinnar.
- með því að iðka trúna með þeim hætti sem okkur er sjálfum eðlilegt og eðlislægt og leita þeirra sem leita hins sama.
- með því að finna farveg fyrir okkar eigin áhugamál í safnaðarstarfinu.
- með því að leita að fólki sem hefur lík áhugamál og vill leggja lið.
- með því að styðja safnaðarstarfið með beinum fjárframlögum og finna aðra sem eru aflögufærir til að gera hið sama.
- með því að bjóða fram aðstoð við safnaðarstarfið með viðveru og með eigin hæfleikum.
- með því að biðja reglulega fyrir söfnuðinum, prestinum og öllu starfsfólki í þjónustu trúarinnar og kirkjunnar.
- með því að tala vel um kirkjuna, söfnuðinn og starfsfólkið og trúariðkunina.
- með því að fara yfir öll persónuleg tengsl, vinabönd, fjölskyldubönd og ættartré í þeim tilgangi að finna þau sem hugsanlega geta haft áhrif á viðhorf ráðamanna til kirkjunnar og safnaðarstarfsins, og ekki síst þingmanna sem bera ábyrgð á fjármálum ríkisins og þar með líka á fjármálum safnaðanna.
- með því að vera alltaf tilbúin til að axla ábyrgð sem kristin manneskja í lífi og leik.
- Og með því að finna allar hinar leiðirnar sem hér voru ekki nefndar.