Kirkjuþing verður sett í Grensáskirkju kl. 9 laugardaginn 12. nóvember. Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, flytur setningarræðu og Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, og Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, flytja ávörp. Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, forseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands flytur erindið „Kirkjan og kynferðisofbeldi Hvað höfum við lært? Hvernig höldum við áfram?“
Kirkjuþing starfar á grundvelli laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78 frá 1997. Samkvæmt ákvæðum þeirra fer það með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka, þ.e. nema önnur ákvæði þeirra eða annarra laga mæli fyrir um annað.
Á kirkjuþingi eiga sæti 29 kjörnir fulltrúar, 12 vígðir menn og 17 leikmenn, auk þess biskup Íslands, tveir vígslubiskupar og einn fulltrúi guðfræðideildar Háskóla Íslands með málfrelsi og tillögurétt. Hinir kjörnu fulltrúar eru kosnir í níu kjördæmum, sem ná yfir eitt eða fleiri prófastsdæmi og úr hverju þeirra kemur einn vígður maður og einn leikmaður, nema úr þremur þeim fjölmennustu, tveimur Reykjavíkurprófastsdæmum og Kjalarnessprófastsdæmi. Þar eru tveir vígðir menn og þrír leikmenn úr hverju kjördæmi. Auk þess eru tveir leikmenn fyrir Eyjarfjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og tveir leikmenn fyrir Suðurprófastsdæmi.
Fulltrúar úr Kjalarnessprófastsdæmi eru Ásbjörn Jónsson, Elínborg Gísladóttir, Magnús E. Kristjánsson, Ragnheiður Ásta Magnúsdóttir og Skúli Ólafsson.
Fylgjast má með málaskrá þingsins og framgangi þess á heimasíðu kirkjuþings.