Skip to main content

Kirkjuskipan 2011: Kirkjustjórn og -stjórnsýsla

Eftir ágúst 29, 2011janúar 10th, 2020Fréttir

Á fyrsta vinnudegi tók íslenski kirkjuþingshópurinn þátt í fjölbreyttri kynningardagskrá í höfuðstöðvum EKD, þýsku mótmælendakirkjunnar, í Hannover.
ekd
Eftir mánudagsmorgunbænir í kapellu hússins tók við löng og ströng vinnutörn í einu fundarherbergi byggingarinnar sem heldur utan um margar vistarverur.

Biskup utanlandsstarfs EKD tók á móti hópnum í upphafi og greindi frá starfsemi deildarinnar sem heldur utan um utanlandsþjónustu kirkjunnar. Þar innifalið er þjónusta við þýska söfnuði erlendis, samskipti við samkirkjulegar stofnanir, þróunar- og neyðarhjálp og samstarf við kristniboðshreyfingar innanlands og utan.

Þar næst tók kirkjuréttardeild EKD við hópnum. Farið var yfir uppbyggingu og strúktúr EKD, í ljósi sögulegra aðstæðna og játningarlegs bakgrunns. Tvær meginhefðir liggja saman í kirkjuskipan sambandslandskirknanna, hin lútherska sem kemur með sterka aðkomu biskups að stjórnun kirkjunnar og hin reformerta sem leggur áherslu á sterka stöðu hinnar almennu synodu, eða kirkjuþingsins.

Einnig fræddist hópurinn um ólíkar gerðir kirkjuskipana í sambandslandskirkjunum og fékk innsýn í yfirstandandi samrunaferli kirknanna í norður- og miðhluta Þýskalands.

Fundargerð dagsins fer nánar í framsögur og umræður.

Kirkjuskipan 2011 er verkefni á vegum Kjalarnessprófastsdæmis. Kirkjuþingsfulltrúar kynna sér starfsemi og stjórnsýslu þýsku kirkjunnar. Kynnisferð til Hannover er unnin í samstarfi við EKD.