Í Vídalínskirkju í Garðabæ er fjölbreytt bænastarf með ólíkum hópum. Nú er að fara í gang, fjórða veturinn í röð, slökun og fyrirbæn fyrir konur, í umsjón Arnhildar Lilýjar Karlsdóttur jógakennara og Kristínar Þórunn Tómasdóttur prests. Slökunin fer fram samkvæmt Yoga Nidra aðferðinni og tekur um klukkutíma.
Bænaefni lögð fram
Kirkjan er tekin frá fyrir samveruna kl. 1730. Jógaslökunin fer þannig fram að fyrst er gengið inn kirkjuna í þögn og konur geta sest við bænastjakann í kirkjunni og skrifað niður bænaefnin sín, eða gengið inn í litla kapellu við hliðar við kirkjuskipið og lagt þar fram bænarefnin sín. Þá er náð í teppi, kodda og dýnu og fundinn staður í kirkjunni, á gólfi eða á kirkjubekk. Kl.17:45 hefst jógaslökun í umsjá Arnhildar Lilý sem tekur um hálftíma. Þá fer presturinn fyrir altarið með bænaefnin á meðan konurnar liggja og slaka á. Kl.18:30 er risið á fætur og gengið aftur út í hversdaginn.
Upplifun á hreinu og tæru núi
Segja má að Yoga Nidra sé nokkurs konar slökunarsvefn þar sem athyglinni er haldið vakandi. Farið er inn í slökunina eftir ákveðnum fyrirmælum. Allir vöðvar líkamans eru slakaðir niður, hugurinn verður hljóður og tilfinningarnar kyrrast. Þannig er „ég-vitundin“ lögð til hliðar og manneskjan komin í djúpt slökunarástand og upplifir andartakið eða núið án þess að það sé truflað af hugsunum og tilfinningum. „Ég-vitundin er sífellt að kalla á eitthvað sem hún vill fá en í Yoga Nidra er andartakið ótruflað af kröfum hennar. Þá eru ákveðnar ímyndunarmyndir notaðar til þess að skoða bæði þægilegar og óþægilegar myndir sem geta vakið upp minningar undir leiðsögn og leitast við að bjóða þessar myndir velkomnar og horfa á þær hlutlaust með vakandi athygli, án þess endilega að flækja sig í minninguna sem þær vekja.