Mikilvægt er í umræðunni að draga fram rök sem styðja hvora leiðina sem farin er. Trúfrelsi og jafnræði eru mikilvæg gildi í samtímanum og stjórnarskrá sem grunnsáttmáli þjóðar þarf að standa vörð um þau. Grunnsáttmáli þjóðar þarf líka að endurspegla sögu og menningu þjóðarinnar sem er mótuð af kristinni trú.
Fundur prófasts með formönnum sóknarnefnda í Kjalarnessprófastsdæmi var haldinn í safnaðarheimili Vídalínskirkju miðvikudaginn 12. september. Á dagskrá voru umræður um málefni sóknanna í upphafi vetrarstarfs, sameiginleg verkefni á vettvangi prófastsdæmisins og skoðanaskipti um stöðu þjóðkirkjunnar.
Prófastur, dr. Gunnar Kristjánsson, bauð viðstadda velkomna en haustfundur með formönnum sóknarnefnda hefur verið fastur liður í starfi Kjalarnessprófastsdæmis um langa hríð. Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir las guðspjall næsta sunnudags úr fjallræðu Jesú og leiddi fundinn í bæn.
Um þjóðkirkjuákvæði stjórnarskrárinnar
Fyrst á dagskrá voru umræður um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs en spurning um þjóðkirkjuákvæði er eitt af þeim atriðum sem kosið verður um. Fundurinn velti því fyrir sér hvort það séu hagsmunir þjóðkirkjunnar að hennar sé getið í stjórnarskrá. Er það mikilvægt og jákvætt fyrir kirkjuna? Er það mikilvægt og jákvætt fyrir þjóðina?
Mikilvægt er í þessari umræðu að draga fram rök sem styðja hvora leiðina sem farin er. Trúfrelsi og jafnræði eru mikilvæg gildi í samtímanum og stjórnarskrá sem grunnsáttmáli þjóðar þarf að standa vörð um þau. Grunnsáttmáli þjóðar þarf líka að endurspegla sögu og menningu þjóðarinnar sem er mótuð af kristinni trú.
Varast þarf að láta umræðuna snúast um stofnunina þjóðkirkju – heldur þarf að gefa gaum að trúnni í menningunni og lífi manneskjunnar. Trúin er gífurlega sterkt afl sem snertir dýpstu tilfinningavitund og skuldbindingar gagnvart öðru fólki og samfélaginu í heild. Því þarf að gefa gaum að málefnum trúarinnar í samfélaginu og finna þeim farveg í þágu samfélagsins og velferðar manneskjunnar.
Viðstödd voru sammála um að biðja prófast um að beina því til biskups Íslands og kirkjuráðs að leiða og nálgast umræðu um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá með ábyrgum og markvissum hætti, þannig að sjónarmið réttlætis og virðingar einkenni samtalið í aðdraganda kosninganna.
Að auki benti prófastur fundarmönnum á grein sína Í öldudal óvissunnar í þessu samhengi.
Sameiginleg verkefni á vettvangi prófastsdæmisins
Prófastur kynnti þau verkefni sem eru á döfinni í prófastsdæminu. Leiðarþing er fyrirhugað 3. október og prédikunarseminar í Skálholti verður haldið 7.-9. október. Nýútkomin er bók með prédikunarfræði á vegum Kjalarnessprófastsdæmi sem byggir á starfi prédikunarseminarsins síðustu árin en tilfinnanlega hefur skort lesefni á því sviði á íslensku.
Efst á baugi í starfi sóknanna
Fundarmenn fóru hringinn og greindu frá því sem efst er á baugi í sóknunum í upphafi vetrarstarfs.
Að vanda urðu góðar og miklar umræður um málefni kirkju og safnaða. Fundurinn staðnæmdist við reglur og praxis í sambandi við útlán, útleigu og greiðslur fyrir afnot af kirkjum og safnaðarheimilum. Ákveðið að vísa málinu til héraðsnefndar sem undirbúi erindi fyrir leiðarþing, þar sem skikkan verði leitað í þessum málum.
Eftir létta hressingu og kaffisopa var fundi slitið kl. 20.