Ég býð ykkur öll velkomin á þennan fund. Að þessu sinni varð það að ráði að sameina hefðbundna vorfundi presta og leikmanna, en fundurinn er opinn öllu sóknarnefndafólki, organistum og öðrum sem sýnt hafa áhuga á að koma, svo lengi sem húsrúm leyfir.
Sérstaklega fagna ég því að nýkjörinn biskup, séra Agnes M. Sigurðardóttir, gat komið því við að heiðra okkur með nærveru sinni. Ég tel það mikils virði að við getum átt samtal um kirkjustarfið í sóknum og prestaköllum í þessu prófastsdæmi. Fyrir hönd Kjalarnessprófastsdæmis býð ég sr. Agnesi velkomna á þennan fund, óska henni jafnframt til hamingu með niðurstöðu úr biskupskjöri og bið henni blessunar Guðs og velfarnaðar í þessu virðulega og ábyrgðarmikla embætti.
Okkur er öllum ljóst að vandi þjóðkirkjunnar um þessar mundir er mikill, kannski að mörgu leyti meiri en oftast áður, þar koma til mörg mál sem ég þarf ekki að telja upp hér en áreiðanlega mun einhver þeirra bera á góma hér á eftir.
Ég hafði hugsað mér að gagnlegt væri fyrir okkur að þessu sinni að beina sjónum að starfsemi prófastsdæmanna alveg sérstaklega og þá einnig þessu prófastsdæmi. Þar er um að ræða skipan og skipulag en einnig kirkjustarfið í þrengri skilningi, fjármál munu einnig koma þar við sögu. Þá tel ég einnig áhugavert að ræða efni sem er ofarlega á baugi í samfélaginu um þessar mundir, það er samband ríkis og kirkju eða öllu heldur trúar og þjóðar eins og ég kýs sjálfur að nálgast það efni, stöðu þjóðkirkjunnar í því samhengi og framtíðarsýn hins nýkjörna biskups um það mál.
Ég vil taka það fram hér í upphafi að við séra Agnes höfum átt góð samskipti sem prófastar undanfarin ár og þekkjum skoðanir hvers annars að einhverju marki, þar held ég reyndar að við séum samstíga um flesta hluti. Þess má einnig geta að hún hefur verið með okkur á prédikunarseminari þar sem hún flutti prédikun, einnig fór hún í ferð, sem margir hér inni hafa einnig farið, það er að segja á slóðir Marteins Lúthers og siðbótarinnar, en fimm alda afmæli siðbótarinnar, árið 2017, nálgast nú óðum. Þau miklu söguskil væri einnig vert að ræða hér ef tími vinnst til. Stór tímamót bjóða upp á mikið tækifæri til þess að rifja upp þátt trúarinnar í menningarlegri undirstöðu þjóðarinnar. „Allt hefur sinn tíma“ sagði prédikarinn Salómon, það á við um siðbótina og þátt hennar í mótun íslenskrar menningar og trúarmenningar alveg sérstaklega. Slík upprifjun á einmitt við núna, í kjölfar kreppu, á tímum óvissu og upplausnar á svo mörgum sviðum.
Þar sem frumkvæði að þessum fundi kom af skrifstofu prófasts er ekki óeðlilegt að verja fáeinum mínútum til þess að kynna prófastsdæmið fyrir nýkjörnum biskupi, horfa á landsvæðið, fólksfjölda, prestafjölda og tölu sóknarnefndafólks. Það sem Kjalarnessprófastsdæmi einkennist af – fyrir utan langa sögu þar sem allar helstu stjórnsýslustofnanir þjóðarinnar voru öldum saman – er fjölbreytni sóknanna. Hér eru allar gerðir af sóknum sem finnast innan íslensku þjóðkirkjunnar, hér eru sveitsóknir og útgerðabæir, fámennar dreifbýlissóknir og fjölmennar þéttbýlissóknir. Fámennasta sóknin er langt innan við hundrað sóknarbörn en sú fjölmennasta yfir tíuþúsund. Fjölbreytni hefur í mínum augum ávallt verið styrkur þessa prófastsdæmis, hér kynnast leikir og lærðir kjörum annarra. Það ætti að efla vitund okkar um að íslenska þjóðkirkjan er ein litrík heild þar sem allir vinna saman, vita hver af öðrum, veita gagnkvæman stuðning og gagnkvæman skilning, slíkt prófastsdæmi ræktar vitund um fjölbreytni og samvinnu þeirra sem búa við ólíkar aðstæður. Héraðssjóður er þessi hugsjón samvinnunnar holdi klædd, tilgangur hans er ekki aðeins að styrkja kirkjustarf heldur að jafna stöðu sóknanna, hann er í reynd jöfnunarsjóður.
Þótt séra Agnesi sé fullkunnugt um þær hugsjónir sem hafa verið forsenda að þessu samstarfi langar mig að rekja það efni í stuttu máli. Allt frá árinu 1979 þegar séra Bragi Friðriksson prófastur beitti sér fyrir stofnun héraðssjóðs og héraðsnefndar hefur samstarf leikra og lærðra í Kjalarnessprófastsdæmi einkennst af sterkri vitund um framsækna kirkjustefnu sem er í senn vakandi um hefðir og siði en einnig opin fyrir nýjungum í öllu sem að starfi kirkjunnar lýtur, í boðun hennar og helgihaldi, í embættisþjónustu prestanna, í starfi með börnum og unglingum, í fræðslu á ýmsum sviðu, í hugleiðslu og íhugun, í biblíulestrum og bænahópum, í barnakórum, gospelsöng og kirkjukórum, í fermingarstörfum, í þjónustu við einstæða og einmana, í skapandi iðju af ýmsum toga með öllum aldurshópum. Þannig mætti lengi telja, kirkjustarf er fjölbreytt hér sem annars staðar, í reynd eru fjölbreytni þess engin takmörk sett.
En siðbótarafmælið, sem er rétt handan við hornið, vekur okkur til umhugsunar um að enginn lifir aðeins á líðandi stund, í sögunni eiga allir rætur sínar, einnig kirkjan, einnig trúarmenningin, sagan sýnir okkur hver við erum, án hennar værum við rótlaus og ráðvillt. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.
Það eru aðeins nokkrir dagar síðan ég átti fund með einum virtasta kirkjusagnfræðingi Þjóðverja á vettvangi siðbótarsögunnar, Thomas Kaufmann. Samtal okkar á skrifstofu hans i háskólanum í Göttingen hófst með því að ég þurfti að rekja fyrir honum siðbótarsögu Íslands og hvernig hinar lúthersku meginreglur trúarmenningarinnar festu hér rætur. Þeim kafla samtalsins lauk með því að hann velti fyrir sér í fullri alvöru hvort Ísland væri kannski það land sem ætti öðrum fremur skilið sæmdarheitið lútherskasta þjóð í heimi. Þar hafði hann í huga hversu fljótt Nýja testamentið var þýtt á íslensku, hversu fljótt kirkjuskipan Bugenhagens var komið hér á, hversu snemma margar postillur voru þýddar á íslensku, hversu snemma læsi varð almennt hér á landi, hversu heimilisguðræknin var mótandi með þjóðinni – og þannig mætti lengi telja. Hér varð til einstaklingsbundin trúarmenning, nátengd heimili og síðar skóla, mótandi fyrir líf einstaklings og samfélags með afar sérstökum hætti og nánast ósambærilegum við önnur lönd álfunnar. Hér varð til trúarmenning en kannski ekki kirkjumenning. Það er umhugsunarefni. Hann sá hér eitt grundvallarhugtak siðbótarinnar holdi klæddi í lífi einnar þjóðar: hinn almenna prestsdóm.
Samkvæmt kirkjuskipan Bugenhagens frá 1541, fylgdi siðbótinni eindregin skipan sókna og prestakalla en einnig ný stjórnsýslueining sem siðbótarmenn höfðu mikið dálæti á: prófastsdæmin. Þess vegna töldu þeir óhætt að draga úr umsvifum biskupsstólanna, stjórnsýslan var færð heim í hérað, dregið var úr miðstýringu, sóknir og prestaköll komast fyrir alvöru á dagskrá, nöfn einstkra presta komast á blað en ekki biskupanna einna.
Og það áhugaverða i þessu sambandi er meðal annars sú staðreynd að sama stjórnskipunarform er einkennandi í nútímastjórnun, það sjáum við í sveitarstjórnarmálum þar sem stjórnin á málefnum samfélagsins hefur í vaxandi mæli færst heim í hérað.
Í okkar kirkju hefur þróunin því miður orðið á annan veg, þar hefur miðstýringin siglt seglum þöndum um langt skeið og farið vaxandi. Miðstýringin hefur valdið miklu um óhamingju kirkjunnar að mínum dómi á undanförnum árum, jafnvel áratugum, henni hefur fylgt valdamikið biskupsembætti, þrúgað af stjórnsýslukvöðum sem á það hafa lagst, en jafnframt hefur einkennt þessa þróun minnkandi umboð og ábyrgð prófasta til að leiða mál til lykta heima í héraði. Þessu þarf að mínum dómi að breyta og undir það sjónarmið taka margir.
Annar fylgifiskur vaxandi miðstýringar er breyting á eðli biskupsembættisins þar sem stjórnsýsluskyldur hafa skyggt á hina andlegu hlið embættisins, einnig er flestum ljóst að sá sem þarf að taka á erfiðum málum, t.d. málum sem varða persónuleg mál presta, á erfitt með að halda trúnaði stéttarinnar, hann hrekst fyrr en varir fyrir vindum óbilgjarnra átaka og sífellt erfiðara með að gegna meginhlutverki sínu: að varðveita einingu kirkjunnar.
Ég tel að atlaga gegn hinum lútherska arfi hafi einnig verið gerð í lögum og reglum þjóðkirkjunnar með öðrum hætti. Með biskupafundi, sem var málamiðlunarráðstöfun á sínum tíma og var fengið það meginhlutverk að leggja til breytingar á skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma. Með þeim hætti hefur valdið færst frá sóknum, prestaköllum og prófastsdæmum, með öðrum orðum frá þjóðkirkjusókninni heima fyrir. Það er fráhvarf frá grundvallarreglu hinnar lúthersku trúarmenningar að hinn almenni prestsdómur eða með öðrum orðum hin lýðræðislega meginregla í öllu starfi kirkjunnar er fótum troðið. Allar breytingar á sóknum og prestaköllum og prófastsdæmum eiga að koma frá heimamönnum. Þar er hið eiginlega kirkjustarf og þar er þekkingin mest á starfinu og þar af leiðandi á þörf fyrir breytingar.
Lúthersfræðingar eru almennt sammála um að ein helsta, sumir segja fullum fetum helsta byltingin – en það er orð sem Thomas Kaufmann notar um þetta atriði – hafi verið kenningin um hinn almenna prestsdóm, kenningin um að einstaklingurinn ætti að ráða framgangi trúarmenningarinnar, hún ætti að vera í hans höndum, í höndum húsbóndans sem var falin húspostillan, í höndum húsfreyjunnar sem gætti fjöreggs trúarinnar í uppeldi barnsins, í höndum hinna leiku. Um það snerist siðbótin.
Hin gamla saga gæti því orðið framsækin saga í okkar kirkju, framsækin, ekki aðeins innan kirkjunnar heldur einnig í okkar þjóðfélagi. Sem markmið á siðbótarafmæli gæti ég séð fyrir mér endurheimt þessarar hugsjónar þar sem leikmaðurinn fær aftur sitt gamla hlutverk, þar sem trúin losnar úr stofnanavæðingu undanfarinna ára og áratuga. Það væri ný áhersla sem hefði í för með sér nýja kirkju – en ekkert er eins skilgetið afkvæmi fagnaðarerindisins og vitundin um að lífið sé í sífelldri endurnýjungu. Það er eitt þýðingarmesta stef trúarinnar í Nýja testamentinu.
Ávarp á vorfundi presta og sóknarnefndafólks með nýkjörnum biskupi, 9. maí 2012.