Mánudaginn 22. janúar, kl. 20:00 verður samkirkjuleg bænastund með þátttöku frá Hvítasunnukirkjunni, Aðventkirkjunni, Kaþólsku kirkjunni og Þjóðkirkjunni. Bænastundin verður í Víðistaðakirkju. Verum öll hjartanlega velkomin.
Helgstundin er hluti af dagskrá alþjóðlegrar samkirkjulegrar bænaviku, en nú eru 110 ár liðin frá því að átta daga bænavaka fyrir einingu kristins fólks var fyrst haldin. Fyrir 50 árum, árið 1968, var fyrst undirbúið sameiginlegt efni til notkunar um allan heim á vegum Alkirkjuráðsins og Kaþólsku kirkjunnar.
Efni bænavikunnar, þema, lestrar, bænir og hugleiðingar, kemur frá aðildarkirkjum Alkirkjuráðsins og frá kaþólsku kirkjunni, en frá mismunandi löndum hverju sinni. Í ár kemur efnið frá kirkjum í Karabíska hafinu og er yfirskriftin „Hönd þín, Drottinn, hefur gert sig dýrlega“. Í efninu er fjallað um afleiðingar nýlendustefnunnar á karabíska svæðinu og ýmsa fjötra sem fólk glímir við, svo sem mansal, klám, ofbeldi, skuldir og fátækt og þess beðið að iðrun, sátt og endurreisn mannlegrar virðingar verði komið á, ekki síst fyrir tilstuðlan kirknanna sem veita margskonar aðstoð á svæðinu.
Í bænavikunni eru haldnar bæna- og helgistundir með fjölbreyttu sniði og farið á milli kirkna á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Sérstök athygli er vakin á bænagöngu sem farin verður á laugardaginn, þann 20. janúar 2018 kl. 18 frá Hallgrímskirkju (austurenda) um Hlemm að Fíladelfíu en þar verður síðan fagnaðarsamkoma með þátttöku margra trúfélaga kl. 20. Málþing vikunnar verður að þessu sinni haldið í kirkju Óháða safnaðarins við Háteigsveg þriðjudaginn 23. janúar kl. 18-21. Efnið þess er „Umhverfisvernd – Réttlátur friður við jörðina“ og er dr. Sólveig Anna Bóasdóttir meðal frummælenda. Þá verður guðsþjónustu útvarpað á Rás 1 frá Grensáskirkju sunnudaginn 21. janúar kl. 11.
Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi hefur staðið að bænaviku hér á landi frá 1980. Hana skipa fulltrúar tíu kristinna trúfélaga, það er Aðventkirkjunnar, Betaníu, Hjálpræðishersins, Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu, Íslensku Kristskirkjunnar, Kaþólsku kirkjunnar, Óháða safnaðarins, Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, Vegarins og Þjóðkirkjunnar.