Skip to main content

Samtal við leikstjóra Eldfjalls

Eftir október 10, 2011janúar 10th, 2020Fréttir

Kvikmyndin Eldfjall, sem hlaut kvikmyndaverðlaun kirkjunnar á RIFF í ár, er nú sýnd í Háskólabíói. Næstkomandi miðvikudag, 12. október, verður Rúnar Rúnarsson, leikstjóri og höfundur myndarinnar, til samtals og svara eftir sýninguna kl. 20.

Rökstuðningur dómnefndarinnar sem veitti Eldfjalli viðurkenningu kirkjunnar á RIFF í ár hljóðar á þessa leið:

Eldfjall er raunsæ kvikmynd, borin uppi af sterkri sögu, góðum leik og styrkri leikstjórn.

Eldfjall er kvikmynd um ástina í sinni fjölbreyttustu og stundum óvæntustu mynd. Hún sýnir innilega ást og unað elskenda. Hún sýnir ábyrgðarfulla og fórnandi ást. Magnaðar nærmyndir mýkja hrjúfan mann og tengja áhorfanda við aðalpersónu.

Eldfjall er kvikmynd um fjölskylduna, um brotin og heil samskipti. Hún sýnir vonleysi og miðlar von. Hún miðlar nánd og pirringi, hlýju og kulda, gleði og sársauka.

Eldfjall er kvikmynd um ellina sem minnir á þörfina fyrir umhyggju og nærveru.

Eldfjall er kvikmynd sem skilur eftir spurningar og hvetur til samtals um mikilvæg efni.

Leikstjórinn verður viðstaddur sýninguna á miðvikudaginn kl. 20 í Háskólabíói. Þetta er einstakt tækifæri til að ræða við magnaðan listamann um verkið hans. Nánar um myndina: