Skip to main content

Sátt þarf að ríkja um skipan trúmála

Eftir ágúst 26, 2011janúar 10th, 2020Fréttir

Það er andstætt hagsmunum kirkjunnar að ósátt ríki um skipan trúmála í landinu. Þess vegna þarf að finna nýjar leiðir til að tjá aðkomu hins opinbera að málefnum trú- og lífsskoðunarfélaga.
Dómkirkjan, Jón og Alþingishúsið
Þetta var meðal þess sem heyrðist á haustfundi presta og djákna í Kjalarnessprófastsdæmi í vikunni en þar var tekist á um grundvallaratriði sem varða kirkjuskipan og trú í stjórnarskrá lýðveldisins. Framsögu á fundinum höfðu tveir fulltrúar Stjórnlagaráðs en ráðið skilaði tillögum að stjórnarskipan Íslands nú í sumar. Að inngangi þeirra loknum tóku við líflegar umræður um fyrirkomulag trú- og kirkjumála í lýðræðisríki.

Arnfríður Guðmundsdóttir og Gísli Tryggvason sem sátu í Stjórnlagaráði gerðu í máli sínu stuttlega grein fyrir störfum Stjórnlagaráðs sem leiddu til tillögu að stjórnarskipan íslenska ríkisins í formi nýrrar stjórnarskrár. Sérstaklega var rætt um ákvæði um trúfrelsi og kirkjuskipan sem eru greinar 18 og 19.

Fram kom í máli framsögumanna að mjög skiptar skoðanir ríktu í ráðinu um það hvort sérstök ákvæði um trúmál og kirkju eiga yfirhöfuð heima í stjórnarskrá lýðveldisins. Greinar um trúfrelsi og kirkjuskipan í endanlegri mynd voru afgreiddar eftir nokkar atkvæðagreiðslur um ólíkar útfærslur á greinunum. Í endanlegri mynd eru þær svona:

18. gr. Trúfrelsi.
Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.
Öllum er frjálst að iðka trú, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einka­ vettvangi.
Frelsi til að rækja trú eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.
19. grein Kirkjuskipan.
Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir at­ kvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Sú túlkun kom fram á fundinum að 19. greinin væri málamiðlun milli þeirra sem vildu allt tal um þjóðkirkjuna í stjórarskrá út og þeirra sem vildi óbreytt ástand, þannig að breyting yrði de jure á stöðu þjóðkirkjunnar en ekki de facto.

Miklar umræður urðu á fundinum um raunverulega þýðingu 19. greinarinnar, verði tillaga Stjórnlagaráðs samþykkt, og merkingu hugtaka sem þar koma fyrir. Kirkjuskipan ríkisins hefur vísan til stjórnarskrárinnar frá 1874 og á samkvæmt hefð í stjórnskipun landsins við um lög um þjóðkirkju Íslands. Í greinargerð með tillögum Stjórnlagaráðs kemur fram að breyting á kirkjuskipan ríkisins ná ekki yfir innri málefni þjóðkirkjunnar heldur breytingum á sambandi ríkis og kirkju.

Einnig voru rifjaðar upp hefðbundnar leiðir til að fjalla um fyrirkomulag trúmála í samfélaginu, svo sem jákvætt og neikvætt trúfrelsi, afhelgun versus fjölbreytni í trúmálum. Viljum við bleikt trúfrelsi eða blátt trúfrelsi, eins og Hjalti Hugason hefur spurt?

Fram kom í umræðum presta og djákna á fundinum að mikil þörf sé á því að ræða málefni trúmála og kirkjuskipunar hér á landi. Setja þarf samtal um trú í samfélaginu á dagskrá með afgerandi hætti. Sameiginleg tilfinning var að staða mála óbreytt sé ekki vænleg fyrir hagsmuni og starf þjóðkirkjunnar, því hún ali af sér óánægju og ósætti, sem sprettur af tilfinningu fyrir því að fyllsta rétti og sanngirni sé ekki gætt. Sátt þarf að ríkja milli kirkju og þjóðar í þessum efnum sem öðrum.

X