Skip to main content

Tónlistin er ákall til saknaðarins

Eftir febrúar 8, 2011janúar 10th, 2020Fréttir

Með því að vindurinn söng í stráum hófst tónlistarsagan samkvæmt hinni ævafornu goðsögn. Og óneitanlega er sú frásaga góð skýring á inntaki tónlistarinnar, í því felst að hún veki tilfinningar með manninum, stundum saknaðarins þegar manninum finnst eins og hann sé skilinn eftir, og eitthvað vanti uppá að líf hans sé eins og það á að vera.

Þetta segir dr. Gunnar Kristjánsson í hugvekju sem var flutt á Kóradegi Kjalarnessprófastsdæmis 5. febrúar í Víðistaðakirkju.

“Tónlistin er ákall til saknaðarins”

Í grískum goðsögum er saga sem ætlað er að skýra uppruna tónlistarinnar, það er sagan um Pan og flautuna sem við hann er kennd en Pan var goð fjárhirðanna í hinu forna Grikklandi. Einhverju sinni varð Pan ástfanginn af gyðjunni Sýrinx og lagði sig fram um að ná ástum hennar. Hann lagði mikið á sig til að ná fundi hennar en hún var vör um sig og flýði undan honum.

Eitt sinn eltir hann gyðjuna að fljóti einu miklu og telur sig hólpinn en þá bregður Sýrinx á það ráð að biðja vatnið um að breyta henni í öldu svo að Pan þekki hana ekki. Hann réttir höndina á eftir henni til þess að grípa í hana áður en hún hverfur. En þegar hann horfir á hönd sína er hún full af sefgrasi.
Hann harmar að hafa misst af Sýrinx sem hann elskaði, en þá þýtur vindurinn í stráinu og hann heyrir eins og flaututón sem er þrunginn þrá og söknuði. Pan bindur nú saman nokkur strá af mismunandi stærðum og blæs í og þar með varð Panflautan til.

Fyrstu tónarnir sem vindurinn lék á flautuna voru tónar ástarinnar, eða öllu heldur tónar ástarsorgarinnar, hún endurómaði söknuðinn. “Tónlistin er ákall til saknaðarins” sagði þekktur heimspekingur um miðja síðustu öld (Ernst Bloch) og þau orð hafa orðið fleyg.

Sagt er að hljóðið úr Panflautunni sé líkast hljóðum pípuorgelsins sem líkist mannsröddinni meir en önnur hljóðfæri. Með því að vindurinn söng í stráum hófst tónlistarsagan samkvæmt hinni ævafornu goðsögn. Og óneitanlega er sú frásaga góð skýring á inntaki tónlistarinnar, í því felst að hún veki tilfinningar með manninum, stundum saknaðarins þegar manninum finnst eins og hann sé skilinn eftir, og eitthvað vanti uppá að líf hans sé eins og það á að vera.

Sagan um Pan býður upp á umhugsun um þessa ævafornu túlkun á upphafi og tilgangi tónlistarinnar. Í huga minn kom einn þeirra tónlistarmanna sem söng um söknuð og þrá mannsins og náði öðrum betur sambandi við unga sem aldna. Tilefnið var ævisaga og jafnframt verðlaunabók bandaríska prestsins James Carroll, og heitir An American Requiem eða Amerísk sálumessa. Hún kom út fyrir réttum 15 árum. Þar segir höfundur merkilegar sögur af þekktum tónlistarmanni sem var nánast tilbeðinn þegar rithöfundurinn var að alast upp og hann fékk reyndar tækifæri til að kynnast honum. Þetta var einhver dáðasti söngvari allra tíma, rokkkóngurinn Elvis Presley sem James Carroll segir að hafi búið til nútímaæsku með því að skilgreina tilfinningar hennar í tónlist sem hitti í mark.

Ég minnist þess reyndar einnig þegar ég var á fermingaraldri hvað eldri systur mínar dáðust að Presley og eins og féllu í stafi þegar hann söng rokklögin sín í útvarpið. Það var engu líkara en hann væri á þeirri stundu merkilegri en allir aðrir. Þegar ég var ellefu ára flutti Presley lagið sem gerði hann frægan, svo að segja á einni nóttu. Það lag var ekki um gleðina og fjörið heldur um söknuðinn og einmanaleikann, það var lagið Heartbreak Hotel sem mætti þýða á íslensku sem “hótel ástarsorgarinnar”.

Þótt Presley yrði heimsfrægur á ótrúlega skömmum tíma vissu menn yfirleitt lítið um hann sjálfan. Það er kannski ekki fyrr en á seinni árum sem menn gera sér grein fyrir því að Presley var sjálfur alla tíð mjög einmana og þótt milljónir manna um allan heim elskuðu hann og dáðu átti hann enga persónulega vini og útgefendur platnanna höfðu hann miskunnarlaust að féþúfu og hugsuðu um það eitt að græða á honum og það gerðu þeir svo sannarlega. Það er engu líkara en Presley sjálfur hafi lifað í öðrum heimi en þeir sem hann söng fyrir.

Það er einnig merkilegt við Presley að hann átti rætur sínar í kristnum trúarsöfnuði vestanhafs og margir hafa bent á ýmsa takta sem hann tamdi sér, þetta voru taktar sem hann hafði tekið upp eftir prédikurunum í kirkju sinni. Án þessara trúarlegu róta hefði Presley kannski aldrei orðið það sem hann varð.
Einu sinni þegar hann hafði slegið í gegn á tónleikum kallaði kona til hans þar sem hann stóð á sviðinu: “Þú ert konungur, Elvis”. Þá svaraði hann yfir salinn á móti: “Nei, ég er ekki konungur, Jesús er konungurinn.”

Presley þekkti sjálfur hvað það var að búa við andstæðan veruleika þeim sem hann söng um, hann þekkti ófrið og erfiðleika á heimili í æsku, húsnæðisleysi, skort og örvæntingu. En hann átti trú í hjarta sínu sem fullvissaði hann um að Guð væri ekki fjarri þrátt fyrir allt, hann gæfi manninum kraft til að þrauka og von sem héldi honum uppi þrátt fyrir andstreymi. Þessu vildi hann koma til skila í lögum sínum, trúin bjó ekki í huga hans heldur í hjartanu. Trúin býr sér til myndir af því sem maðurinn saknar og þráir og gefur honum hugrekki til að lifa eins og Guð væri nærri og fyrr eða síðar verði allt gott.

Tónlistin vekur tilfinningar í huga mannsins. Það er boðskapur sögunnar um Pan en einnig annarrar fornrar sögu sem við þekkjum úr Gamla testamentinu og snýst um mátt tónlistarinnar. Það er frásögn Fyrri Samúelsbókar um fjárhirðinn Davíð sem síðar varð konungur í Ísrael og lék á hörpu sína líkt og Pan á flautu sína. Hann lék fyrir Sál konung sem þjáðist af sinnisveiki eins og segir orðrétt í bókinni: Alltaf þegar illi andinn frá Guði kom yfir Sál tók Davíð hörpuna og lék á hana. Þá létti Sál og honum leið betur og illi andinn yfirgaf hann (16,23).

Það þarf því engan að undra að tónlistin hafi alla tíð skipt svo miklu máli í guðsdýrkun og helgihaldi, ekki síst í helgihaldi okkar lúthersku kirkju, við erum þar við lindir hins upprunalega.

Sumir hafa sagt að tónlistin væri tungumál trúarinnar í öðrum skilningi: í henni býr andi trúarhefðarinnar, í sálmum sem við þekkjum frá blautu barnsbeini, sem forfeður okkar og -mæður hafa sungið á hátíðum og gleðistundum en einnig í sorg og mótlæti.

Tónlistin býr yfir ýmsum töfrum til að ná til hjarta mannsins. Marteinn Lúther þekkti söguna um Davíð og Salómon, hann þekkti einnig söguna um Pan og Sýrinx, hann ruddi brautina fyrir tónlist í kristnum söfnuði, ekki hvað síst sálmum sem kirkjugestir sungu sjálfir. Hann lagði sitt af mörkum til að hvetja fólk til að syngja með því að semja sálma og einnig sönglög.
Hann vildi gera söfnuðina virkari í helgihaldinu og í því sambandi vantaði sálma til almenns kirkjusöngs. Hann fór þá sjálfur að yrkja sálma, og hvatti vini sína til að gera slíkt hið sama. Tvo þriðju þeirra sálma sem Lúther samdi (24 af 36) orti hann á árunum 1523-1524 og að hluta til samdi hann einnig lögin. Árið 1524 voru fyrstu sálmabækur siðbótarinnar prentaðar. Þess er gott að minnast þegar við setjum okkur í stellingar til að minnast fimm alda afmælis siðbótarinnar árið 2017.

Við eigum það Lúther að þakka að brautin var rudd fyrir glæsilega tónlistarsögu siðbótarmenningarinnar alla tíð, það er arfur sem við þekkjum og byggjum á en um leið kallar hann til nýsköpunar, samtal við hefð og sögu fer fram í formi nýsköpunar, nýrra hugmynda, nýrra hugsjóna á vettvangi tónlistarinnar. Tónlistin kallar til nýsköpunar vegna þess að hún gefur manninum nýtt hugrekki til að syngja nýjan söng á hverjum tíma. Því að “tónlistin er ákall til saknaðarins” sem maðurinn skynjar í hjarta sínu til Guðs, til þeirrar þrár sem bærist í hjarta hans ákall án orða til þess sem er gott, fagurt og satt. Í tónlistinni skynjar hann þann heim innan seilingar.
Amen

X