Skip to main content

Trúarbrögð í Fullorðinsfræðslu Hafnarfjarðarkirkju

Eftir janúar 10, 2011janúar 10th, 2020Fréttir

Fullorðinsfræðsla Hafnarfjarðarkirkju er að fara af stað á ný eftir áramót.

Megináherslan þar í vetur hefur verið á svokölluðum „Trúarbragðaskóla“ þar sem farið er í gegnum öll helstu trúarbrögð mannkyns og þau spegluð í ljósi kristinnar trúar. Námskeiðin eru ætluð almenningi og áhugafólki.

Hafnarfjarðarkirkja
Tvö af námskeiðum Fullorðinsfræðslunnar hafa verið á faraldsfæti undanfarin misseri um sóknir landsins og standa sóknum áfram til boða.

Hið fyrra þeirra kallast HAMINGJUNÁMSKEIÐ. Markmið þess er að kynna nýjar leiðir fyrir þjóð í kreppu til að sjá björtu hliðar tilverunnar og finna hamingjuna í breyttum aðstæðum. Námskeiðið hefur verið haldið í Vestmannaeyjum, Keflavík, Grindavík, Hafnarfjarðarsóknum, Bolungarvík, á Ísafirði og Akureyri. Nú þegar er búið að panta námskeiðið í nokkrar sóknir eftir áramót. Byggir það á hjónanámskeiðunum sem margir þekkja og sr. Þórhallur Heimisson hefur haft veg og vanda af á undanförnum árum.
Hið síðara hentar vel fyrir kennara og foreldrafélög og heitir KIRKJA OG SKÓLI Í SÖGU OG SAMTÍÐ. Er þar leitast við að varpa ljósi á tengsl kirkju og skóla „í sögu og samtíð“ og þá sérstaklega hér á landi, allt frá skólunum í Skálholti og á Hólum og til okkar daga. Er námskeiðið hugsað sem innlegg í þá umræðu sem nú á sér stað um samband skóla og kirkju – til að vekja kennara og foreldra til umhugsunar. Námskeiðið hefur verið haldið víða á höfuðborgarsvæðinu.

Frekari upplýsingar um Fullorðinsfræðslu Hafnarfjarðarkirkju veitir sr. Þórhallur Heimisson sóknarprestur.