Skip to main content

Prédikanir og pistlar um jól og áramót

Eftir janúar 3, 2012janúar 10th, 2020Fréttir

Prestarnir í Kjalarnessprófastsdæmi þjónuðu í rúmlega 60 messum, guðsþjónustum og helgistundum um jólin. Nokkrar af prédikununum þeirra hafa birst á vefnum Trú.is. Þar hrósa prestarnir og brýna, uppörva, hvetja til góðra verka og varpa ljósi á helgi jólanna, endurlit áramótanna og von nýja ársins.

Jólin 2009

Jólin

Gunnar Kristjánsson, prófastur á Reynivöllum, flutti útvarpsprédikunina Hið heilaga, trúin og hátíðin í Brautarholtskirkju á jóladegi:

Návist hins heilaga, sem gefur lífi okkar og starfi, sögu okkar og samskiptum við aðra, við menn og skepnur, við landið, fjöllin, við birtu dagsins, nýja dýpt, nýja merkingu, dýpri tilgang. Þetta er hið trúarlega í lífi okkar, þetta er trúin í lífi okkar.

Er það ekki hún sem ber okkur áfram frá degi til dags með nýrri von fyrir hverjum degi, með nýju hugrekki til að lifa, með nýrri löngun til að láta gott af okkur leiða?

Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Vídalínskirkju, skrifaði jólaprédikun með eiginmanni sínum, Bjarna Karlssyni, sóknarpresti í Laugarneskirkju, ræddu um hið heilaga í lífinu í prédikuninni Íslenska talningin:

Barátta Jósefs og Maríu, ákvörðunin sem lá við ankeri í hjarta þeirra, var um það að varðveita hið heilaga í lífinu og gefa því vaxtarskilyrði. Um þetta eru jólin. Þau eru sú góða frétt að gjafari lífsins leggur sjálfan sig og allt sem hans er í okkar hendur. Í fullu trausti, upp á von og óvon og án þess að horfa um öxl eitt andartak gefst Guð heiminum sem grátandi barn vafið reyfum.

Hans Guðberg Alfreðsson, prestur í Bessastaðakirkju, nefndi mann ársins, Mugison, í prédikun um jólin:

Og þegar menn finna hjá sér örlæti eins og Mugison gerði þá finnum að við erum kannski þrátt fyrir allt bara á réttri leið og allt dægurþrasið víkur einhvern veginn þegar menn eins og Mugison gera svona góða hluti og sýna með fordæmi sínu að þeir vilja sýna sínar bestu hliðar. Þar er þakklæti hans til okkar allra sem höfum tekið svona vel á móti nýjasta diskinum hans sem ræður för.

Skúli Sigurður Ólafsson, sóknarprestur í Keflavíkurkirkju, ræddi um það sem endist í prédikun á jólanótt:

Tilfinningarnar sem frá hjartanu koma eru svo miklu endingarbetri. Og það er einmitt það sem gerir sálminn „Nóttin var sú ágæt ein“ svo ágætan og sígildan. Sálmurinn fjallar um þessar tilfinningar okkar og hann er ortur af sannri tilfinningu. Þar er ekkert of eða van heldur er einlægnin sönn. Og einlægnin fetar alltaf meðalhófið.

Jólanóttin er magnaður tími. Dveljum í kyrrðinni og gerum hjartað okkar að jötu Jesúbarnsins sem mætir okkur á hinum fyrstu jólum. Þar á Jesús heima og þar verkar hann í okkur til blessunar um alla framtíð.

Á jóladegi prédikaði Skúli Sigurður um jólagleði, kyrrð og ljós:

Jólagleðin á að lifa í hjörtum okkar lengi. Hún fjallar um það sem er raunverulegt og ekta og getur verið svo sterkt að það lýsir upp tilveru fólks sem býr jafnvel við hin erfiðust kjör. Það er gleðin og bjartsýnin sem birtist okkur í hinu nýfædda barni á jólunum fyrstu. Þegar við kyrrum hugann og ýtum frá okkur óþarfa áreiti eins og við ættum öll að gera reglulega og þá auðvitað á jólunum líka – fer vel á því að hugleiða hin dýpstu verðmæti. Hvað skiptir þig mestu máli?

Áramót

Í áramótaprédikun sinni „Treystum Guði og látum púðrið ekki vökna“ ræddi Þórhallur Heimisson, sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju um Guð sem kallar til verka:

Sá Guð sem er okkur athvarf kallar okkur um leið til verka. Við erum samverkamenn hans í heiminum þá daga sem okkur eru gefnir hér á jörðu. Þess vegna ber okkur að gæta þeirra vel, og nýta þá til góðs fyrir heiminn, ástvini okkar og Guði til dýrðar.

Í nýársdagsprédikuninni Nú vantar heiminn Lagarfljótsbreiðan og Jökulsárdjúpan kærleika ræddu Bjarni Karlsson og Jóna Hrönn Bolladóttir um fyrirmyndir trúarinnar:

Við eigum fleiri fyrirmyndir í hópi genginna kynslóða en okkur grunar og það er mikilvægt að halda þeim á lofti og leyfa góðilimi hins elskandi trúararfs að fylgja okkur inn í nýtt ár. Nú eru orðin vatnaskil í sögu íslensku þjóðkirkjunnar. Við vitum það öll. Nýr tími er runninn upp en við vitum ekki hvað hann felur í sér.

Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, prédikaði um Höfund tímans í Hafnarfjarðarkirkju á nýársdegi:

Við höfum fengið dásamlega nýársgjöf. Nýtt ár. Í Jesú nafni. Það merkir að við megum verða samferða sem kirkja, og samferða höfundi tímans allt hið nýja ár til enda, í öryggi, í friði og í kærleika.

Pistlar

Prestarnir í prófastsdæminu skrifuðu líka pistla um jól og áramót.

Þórhallur Heimisson sagði frá Stefánsdegi sem er haldinn á öðrum degi jóla:

Þá minnist kirkjan hins fyrsta píslarvotts kristinna manna, Stefáns, sem var grýttur fyrir að játa trú á Jesú sem Son Guðs og frelsara manna.  Og það var Páll, síðar postuli, sem stýrði aftökunni. Eða lét sér hana alla vega vel líka.

Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifuðu um jólin í kvikmyndum Svinalängorna og Love Actually:

Kristin trú er trú lífsins alls, trú heildarinnar. Hún nær bæði til dimmunnar í lífinu og til birtunnar. Áskorunin okkar er að dvelja aldrei í myrkrinu eða við það, heldur stíga þaðan yfir í ljósið. Kveikja ljós þar sem myrkur er. Á þann minna jólin okkur. Þau minna okkur á að horfast í augu við myrkrið og kveikja ljós. Þau minna á ljósþörfina í okkar lífi og annarra. Þau kalla okkur til að vera ljósfólk, sem kveikir ljós í eigin lífi og annarra.

Árni Svanur og Kristín Þórunn skrifuðu einnig um samtímajólasálma á geisladiskinum Nú stendur mikið til:

Jólastjörnunni sem boðar sátt og breiðir út hlýju, er sungið lof en líka er spurt hver huggi þann sem skærast skín. Þránni eftir ást og öryggi eru gerð skil í Guð má vita hvar. Þar lofar höfundur ævilangri tryggð og eftirfylgd án þess að líta nokkru sinni við. Textinn kallast líka á við hjónabandsheitið um ást og tryggð og minnir á að jólin eru tími ástarjátninga og fjölskyldu.