Skip to main content

Útgáfa

Á undanförnum árum hefur Kjalarnessprófastsdæmi gefið út margvíslegar bækur og hefti um guðfræðileg og kirkjuleg efni. Vöntun hefur verið á slíku lesefni á íslensku fyrir presta og leikmenn og aðra áhugasama um kristna trú og kirkju. Panta má eftirfarandi bækur og hefti á skrifstofu Kjalarnessprófastsdæmis í síma 566 7301 eða skrifa tölvupóst á netfangið kjalarpr@gmail.com.

Lútherslestrar – fyrir hvern dag ársins

Heiti bókarinnar á þýsku er Luther Brevier. Það vísar til hefðar í kristinni trúariðkun þegar lesið er daglega úr ritum kirkjufeðranna. Lúther skrifaði mikið til að glæða skilning fólksins á trúnni. Honum var einkum hugleikið framkoma fólksins við hvert annað í ljósi trúarinnar. Það er áskorun nú sem fyrr og því eiga orð Lúthers svo mikið erindi við nútímann. Bókin kom fyrst út árið 2007 á fæðingardegi Marteins Lúthers, 10. nóvember og var gefin út af Alþjóðlegu Lútherstofnuninni í Erfurt í Þýskalandi. Bókin er 384 bls. með formála, 365 lestrum og kafla um Lúther og siðbótina.

Orðið er laust: Um prédikun í samtímanum

„Orðið er laust” hefur að geyma fyrirlestra sem Wilhelm Gräb flutti á prédikunarseminari Kjalarnessprófastsdæmi árið 2012. Bókin fjallar einkum um prédikunina sem trúarlega ræðu. Í því sambandi er horft til þess hlutverks sem prédikunin hefur í menningu líðandi stundar. Höfundur hafnar því að eingöngu skuli horft á prédikunina í kirkjulegu samhengi. Þetta viðhorf gerir nýjar kröfur til þeirra sem prédika. Í bókinni er einnig fjallað um greiningu á þætti trúarinnar í fjölmenningarlegu samhengi.
Wilhelm Gräb er prófessor í praktískri guðfræði við Humboldt-háskólann í Berlín og háskólaprédikari. Hann hefur skrifað mikið um prédikunarfræði, um list og kirkju og um hlutverk fjölmiðla. Hann hefur verið fyrirlesari á prédikunarnámskeiðum Kjalarnessprófastsdæmis í Skálholti undanfarin ár.

Marteinn Lúther: Hver var hann?

Marteinn Lúther er í hugum margra kunnuglegt nafn í sögunni en færri þekkja manninn sjálfan. Hér fer stutt og aðgengileg samantekt á lífi, starfi og áhrifum Marteins Lúther í tilefni þess að senn eru fimm aldir liðnar frá upphafi siðbótarinnar. Dr. Gunnar Kristjánsson prófastur tók efnið saman.
Þetta hefti er tilvalið fyrir þá sem vilja kynna sér lífshlaup Lúthers og starf. Heftið hentar vel sem grunnur að fræðslu um Lúther, jafn í fermingarfræðslu sem og fullorðinsfræðslu.

Á mælikvarða mannsins: Leiðir til samtímalegrar prédikunar

Prédikunarfræðin er lykilgrein í guðfræði. Prédikarinn kemur fram guðfræðingur og trúaður samtímamaður. Í prédikun sinni fæst hann við vandamál samtímans, við kristna trúarhefð, við sína eigin persónu og jafnframt við móðurmálið. Fyrirlestrarnir í þessari bók, sem fluttir voru á prédikunarseminari Kjalarnessprófastsdæmis árið 2011, eru inngangur að grundvallarviðfangsefnum samtímalegrar prédikunar og byggjast á nánu samtali prédikunarfræðinnar við nýjustu þekkingu á sviði sálfræði málvísinda og félagsvísinda. Meginmarkmiðið með bókinni er að glæða áhuga á prédikuninni og minna prédikarana á hversu gefandi vinna þeirra getur verið.
Wilfried Engemann er prófessor í praktískri guðfræði við Vínarháskóla. Hann hefur ritað fjölda bóka um prédikunarfræði og sálgæslu; hann hefur verið fyrirlesari á prédikunarseminörum Kjalarnessprófastsdæmis í Skálholti undanfarin ár.

Jesús og jaðarfólkið: Mannskilningur og trú

Í þessu hefti eru saman komin erindi og prédikanir sem fluttar voru á prédikunarseminari í Skálholti árið 2010. Aðalfyrirlesari þess seminars var Wilfried Engemann prófessor í praktískri guðfræði við Wilhelmsháskólann í Þýskalandi. Sérsvið hans er prédikunarfræði, sálgæslufræði og litúrgískar rannsóknir. Engemann hefur tvisvar ásður verið gesur á prédikunarseminari Kjalarnessprófastsdæmis, árið 2005 og 2008.
Í erindum sínum tekst Engemann á við grundvallaratriði prédikunarfræðinnar, mannskilning prédikunarinnar annars vegar og helgihaldsins hins vegar.

Faðir vor, trúarjátningin & boðorðin tíu – fermingarhefti

Faðir vor, trúarjátningin og boðorðin tíu er þýdd og staðfærð útgáfa á þýsku fermingarfræðsluefni. Hér er um aðgengilegt efni að ræða fyrir ungt fólk sem vill fræðast um höfuðatriði kristinnar trúar. Verkefnablöð fylgja efninu.

Skírnin

Skírnin er lítill og fallegur bæklingur sem hefur að geyma barnaguðspjall Markúsar og fræðslu um skírnarathöfnina, uppruna hennar, eðli og inntak. Skírnin er góð gjöf á skírnarstundu frá kirkjum og söfnuðum sem og til fermingarbarna og annars safnaðarfólks.

Opin kirkja

Ný trúarmenning

Þjóðkirkjan og lýðræðið

Þjóðkirkjan og lýðræðið hefur að geyma erindi sem flutt voru á ráðstefnu sem haldin var í Skálholti 23.-24. ágúst 2009. Þjóðfélagsumræðan í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 opnaði almenna umræðu um grunnstoðir samfélagsins og þar með um lýðræði í íslensku samfélagi, sem er sterkur þáttur í lútherskri kirkjuhefð.
Í erindunum er fjallað um málefni kirkjunnar á líðandi stund með hliðsjón af hugmyndafræði þjóðkirkjulaganna. Þau kalla á rökræðu um kirkjuna í íslensku samfélagi og hljóta að vekja áhuga margra sem telja Þjóðkirkjuna eiga þar erindi að gegna.

Skynjun og skilningur

Í þessu hefti er að finna erindi og prédikanir sem flutt voru á prédikunarseminari í Skálholti 26.-28. október 2008. Að þessu sinni var áherslan á skynjun og skilning í prédikuninni og því voru prédikunarefni þeirra fjögurra presta sem sömdu og fluttu prédikun í Skálholtskirkju: Ilman, snerting, sjón og heyrn.
Wilfried Engemann flutti fjóra fyrirlestra um prédikunina sem hér birtast. Engemann er prófessor í praktískri guðfræði við Vínarháskóla. Hann hefur ritað fjölda bóka um prédikunarfræði og sálgæslu og er að góðu kunnur eftir að hafa komið á prédikunarseminar árið 2005.

Þá þú gengur í guðshús inn

Faðir vor

Faðir vor er lítill og fallegur bæklingur sem hefur að geyma bænina sem Jesús kenndi lærisveinum sínum, einingarbæn kristinnar kirkju ásamt útskýringum. Faðir vor er tilvalin gjöf frá kirkjum og söfnuðum til skírnarbarna, fermingarbarna og annars safnaðarfólks.

Prédikun, pistlar og blogg

Hér eru saman komin erindi og hugvekjur sem fluttar voru á Prédikunarseminari Skálholtsprófastsdæmis í Skálholti 28.-30. október 2007. Gestafyrirlesari seminarsins að þessu sinni var Wilhelm Gräb, deildarforseti við guðfræðideild Humboldtháskóla í Berlín þar sem hann kennir praktíska guðfræði. Gräb hefur ritað fjölmargar bækur um ýmsar greinar þeirrar guðfræði, einkum um prédikunarfræði.

Áfram ábyrg

Áfram ábyrg: Áhrif skilnaðar á börn og leiðir til úrbóta hefur að geyma erindi sem flutt voru á málþingi í Keflavíkurkirkju undir sömu yfirskrift þann 23.-24. febrúar 2007. Verkefni var unnið í samvinnu við Keflavíkurkirkju og fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar.
Á þinginu var rætt um þau áhrif sem skilnaður foreldra hefur á börn og voru meðal annars kynntar nýjar niðurstöður um líðan ungmenna með hliðsjón af fjölskylduaðstæðum. Einnig voru ræddar ýmsar leiðir sem í boði eru til þess að veita fjölskyldum stuðning í kjölfar skilnaðar og má þar nefna sáttamiðlun, leiðsögn, sálgæslu og önnur meðferðarúrræði. Sérstakir gestir voru þau Erika Beckmann og Thomas Herz, en þau starfa á vegum fjölskylduþjónustu kirkjunnar í Marburg.

Samtal við samtímann

Samtal við samtímann hefur að geyma erindi og prédikanir sem fluttar voru á prédikunarseminari Kjalarnessprófastsdæmis í Skálholti 29.-31. október árið 2006.
Að þessu sinni var Reinhard Brand fenginn til að miðla af reynslu sinni og fjalla um kenningar eins þekkts guðfræðings á sviði prédikunarfræðinnar. Brand var um árabil starfsmaður prédikunarseminarsins í Hofgeismar í prófastsdæminu Kurhessen-Waldeck í sambandslandinu Hessen í Þýskalandi og umsjónarmaður með menntun presta á sviði prédikunar og prédikunarfræða og hefur því af miklu að miðla.

Prédikunarseminar

Hér má lesa erindi og prédikanir sem fluttar voru á prédikunarseminari í Skálholti 6.-8. nóvember 2005, þriðja prédikunarseminari Kjalarnessprófastsdæmis.
Að þessu sinni var prédikarinn sjálfur í forgrunni. Hvaða áhrif hefur persónuleiki prédikarans á boðun hans og miðlun? Er hann ákvarðandi fyrir val hans á þemum prédikunarinnar, framsetningu og snið? Þetta viðfangsefni reifar Wilfried Engemann í þremur erindium. Engemenn er prófessor í kennimannlegri guðfræði við Wilhlemsháskólann í Munster í Þýskalandi og hefur mikið skrifað um prédikunarfræði.

Fermingarhefti: Faðir vor og trúarjátningin

Um prédikunina

Hér er að finna erindi og hugvekjur sem fluttar voru á prédikunarseminari Kjalarnessprófastsdæmis í Skálholti þann 1.-2. nóvember 2004.
Prédikunarfræðin hefur notið vaxandi athygli undanfarin ár og er nú blómlegri en oft áður. Hér fjalla fimm fyrirlesarar um prédikunina út frá ólíkum sjónarhornum. Gunnar Kristsjánsson fjallar um viðmælendur og viðtökufræði. Skúli Ólafsson fjallar um prédikun á eylandinu. Sigríður Guðmarsdóttir fjallar um prédikun, táknfræði og málleysingar í upphafi 21. aldar. Jurgen Jamin fjallar um Hómilíuna, prédikun í messugerð Rómarkirkju. Þá fjallar Sigurjón Árni Eyjólfsson um kirkjuskilning Marteins Lúthers.

Þjónar í húsi Guðs

Þjónar í húsi Guðs er handbók fyrir meðhjálpara og kirkjuverði, sóknarnefndir og starfsfólk kirkjunnar. Bókin er ætluð þeim sem gegna þjónustu í kirkjum landsins við helgihald og tilbeiðslu. Aðaláhersla er lögð á starf meðhjálparans en einnig er ritið ætlað öðru starfsfólki; kirkjuvörðum, húsmæðrum, húsvörðum, hringjurum, organistum og framkvæmdarstjórum, svo eitthvað sé nefnt. Þá getur efnið gagnast sóknarnefndarfólki og öðrum sem trúnaðarstörfum gegna í þágu safnaðarins.
Ritið á að gagnast sem handbók og fræðirit fyrir ofangreinda aðila. Ekki hefur verið um auðugan garð að gresja í þeim efnum hingað til. Með þessu riti er því væntanlega bætt úr brýnni þörf að einhverju marki.

Um prédikunina

Hér er að finna erindi og hugleiðingar sem flutt voru á málþingi um prédikunina í Skálholti 3.-4. nóvember 2003, fyrsta prédikunarseminari Kjalarnessprófastsdæmis. Heftið hefur að geyma fjölbreytt erindi þar sem meðal annars er fjallað um stöðu prédikunarinnar í nútímanum; prédikunina í SVÓT greiningunni; um framsetningu prestsins; og prédikunina sem bókmenntir, svo eitthvað sé nefnt.

Kirkja og félagsþjónusta

Í sátt og samlyndi: Vinnubók

Í sátt og samlyndi