Á þessu ári er haldið upp á 150 ára afmæli Útskálakirkju en hún var tekin í notkun árið 1861. Um komandi helgi verður mikil afmælishátíð sem allir mega taka þátt í!
Á föstudaginn kemur Garðakórinn, kór eldri borgara í Garðabæ og heldur stutta tónleika í kirkjunni kl. 18.30.
Á laugardeginum verða gönguferðir frá Keflavíkurkirkju og Hvalsneskirkju. Lagt verður af stað kl.10. Rútuferð verður frá Útskálum kl.9.30 ef fólk vill skilja bíla eftir þar. Gengið verður að Útskálum og er reiknað með að göngurnar taki 2,5-3 klst. Tekið verður á móti göngufólki með vöfflukaffi í Útskálahúsinu.
Kl. 13 verður afar áhugaverð skoðunarferð um Útskálakirkjugarð undir leiðsögn Gunnars Bollasonar.
Á sunnudeginum er aðal afmælishátíðin. Hefst hún á útvarpsmessu kl. 11.00. Þar predikar sr. Sigurður Grétar Sigurðsson og þjónar fyrir altari fyrir predikun. Hr. Karl Sigurbjörnsson biskup þjónar fyrir altari eftir predikun. Sr. Gunnar Kristjánsson prófastur les ritningarlestra. Kirkjukórar Útskála og Hvalsnessókna syngja undir stjórn Steinar Guðmundssonar organista. Barnakór Garðs syngur undir stjórn Vitor Hugo Euginio. Áki Ásgeirsson leikur á Trompet.
Að messu lokinn verður haldið í Gerðaskóla þar sem boðið verður upp á veglegar veitingar. Þar verður fjölskylduvæn dagskrá sem samanstendur af söngleik fjórðu bekkinga, ávörpum prófasts og biskups, söng barnakórsins og tónlistaratriðum frá tónlistarskólanum. Allir eru velkomnir að taka þátt í gleðinni.