Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, mun vísitera söfnuði í Kjalarnessprófastsdæmi nú á vormánuðum. Þetta er fyrsta biskupsvísitasía hennar og vinnur starfsfólk biskupsstofu og prófastsdæmisins nú hörðum höndum að því að skipuleggja heimsóknir biskups til allra sókna í prófastsdæminu, sem eru 16 talsins.
Vísitasían mun formlega hefjast með þátttöku biskups á héraðsfundi Kjalarnessprófastsdæmis, 19. mars, sem haldinn verður í Bessastaðasókn. Þar koma saman prestar, djáknar og fulltrúar safnaðanna á aðalfundi prófastsdæmisins og verður Agnes sérstakur gestur fundarins. Síðan verður Agnes viðstödd messu í Reynivallakirkju á Pálmasunnudag, 24. mars, og vísiterar söfnuðina í því prestakalli.
Nýmæli í undirbúningi vísitasíunnar, er að boðið verður til seminars um vísitasíur í sögu og samtíð lúthersku kirkjunnar. Þar mun dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur, leiða samtal um tilgang og markmið biskupsvísitasíunnar í lúthersku kirkjunni, og hvernig siðbótarmennirnir sáu fyrir sér að þær ættu að vera. Seminar um vísitasíuna verður haldið í Vídalínskirkju í Garðabæ, þriðjudaginn 19. febrúar, kl. 17-19.