Skip to main content

Þjóðkirkjan og lýðræðið

Eftir janúar 15, 2010janúar 10th, 2020Fréttir

Það er ekki á hverjum degi sem út kemur bók um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. En nú er bókin Þjóðkirkjan og lýðræðið komin út. Hún inniheldur greinar sem fjalla um málefni kirkjunnar á líðandi stund, með hliðsjón af hugmyndafræði þjóðkirkjulaganna frá árinu 1997.

Í kjölfar efnahagshrunsins á haustdögum 2008 opnaðist almenn umræða um grunnstoðir samfélagsins og mikilvægi lýðræðis. Bókin Þjóðkirkjan og lýðræðið kallar á rökræðu um kirkjuna í íslensku samfélagi og vekur þannig áhuga margra sem telja þjóðkirkjuna eiga þar erindi að gegna. Þjóðkirkjan og lýðræðið inniheldur ólíkar nálganir, svo sem sagnfræðilega, guðfræðilega, stjórnunarlega og lögfræðilega, í umfjöllun um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Þau sem skrifa í bókina eru Þorsteinn Pálsson, Ásbjörn Jónsson, Ásdís Emilsdóttir Petersen, Pétur Kr. Hafstein, Svanur Kristjánsson, Kristín Bjarnadóttir, Skúli Ólafsson, Harald Hegstad, Hulda Guðmundsdóttir, Gunnar Kristjánsson, Pétur Pétursson, Thies Gundlach, Solveig Lára Guðmundsdóttir, Sigurjón Pétursson, Lára G. Oddsdóttir, Kristinn Ólason og Guðbjörg Jóhannesdóttir. Í þeim hluta bókarinnar sem kenndur er við Frá mínum kirkjudyrum séð, er m.a. rýnt í breytingar á sambandi ríkis og kirkju í Noregi, lausnir á samstarfsvanda á kirkjulegum vettvangi og ögranir við boðun fagnaðarerindisins í samtímanum. Aðrir hlutar bókarinnar taka fyrir stjórn, stöðu og starfshætti þjóðkirkjunnar, oft á gagnrýninn og ögrandi hátt. Í grein sinni Kirkjan og lýðræðishefðin spyr Svanur Kristjánsson prófessor og sjálfboðaliði í Nessókn: „Hvað með stöðu íslenskrar kirkju á þessum umbrotatímum? Er kirkjan í okkar samtíma í takt við óskir og þrár fólksins í landinu um nýtt þjóðfélag, byggt á mannhelgi, frelsi, fjöfnuði og samhjálp? Hefur íslensk kirkja einhverju hlutverki að gegna í viðleitninni til að gera þjóðfélagið lýðræðislegra?“ Þessar spurningar eru vissulega brýnar og nauðsynlegar í dag og Svanur bætir við: „Svara ber spurningum um stöðu íslenskrar kirkju í þátíð, nútíð og framtíð af fullri hreinskilni.“ (bls. 118) Hulda Guðmundsdóttir, kirkjuþingsfulltrúi og guðfræðingur, fjallar um stjórnunarmenningu í þjóðkirkjunni í grein sinni Er „kerfið“ lýðræðislegt? Þar rýnir hún m.a. í starfsreglur um kirkjuþing og kirkjuráð og gagnrýnir þá tilhneigingu að binda hugtök eins og kirkjustjórn og yfirstjórn kirkjunnar við eitt embætti (bls. 89). Hulda minnir líka á að lýðræði í kirkjunni byggist fyrst og síðast á vilja fólks til virkrar þátttöku og að stjórn þjóðkirkjunnar hvíli á fjölskipuðu stjórnvaldi. Tilefnið af útgáfu þessarar bókar er sem fyrr segir skoðanaskipti um lýðræðið í þjóðfélagsumræðunni undanfarin misseri en einnig að Ólafur Skúlason fv biskup Íslands, hefði orðið áttræður á síðasta ári. Þjóðkirkjulögin, Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar (nr. 78), sem samþykkt voru á Alþingi 26. maí 1997 voru sett í biskupstíð hans. Bókin Þjóðkirkjan og lýðræðið er 182 bls á lengd. Útgefandi er Kjalarnessprófastsdæmi og ritstjórn önnuðust dr. Gunnar Kristjánsson og sr. Skúli S. Ólafsson.