Skip to main content

Hátíðartónleikar og Lútherskantata

Eftir mars 30, 2017janúar 10th, 2020Fréttir

Í tilefni 500 ára siðbótarafmælinu árið 2017 stendur Kjalarnessprófastsdæmi fyrir tveimur tónleikum með fjölbreyttri efniskrá og frumflutningi á Lútherskantötu í samstarfi við kirkjukóra og organista prófastsdæmisins og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Tónleikarnir verða laugardaginn 28. október, kl. 16:00 í Víðistaðakirkju og sunnudaginn 29. október kl. 16:00 í Hljómahöllinni, Reykjanesbæ.

Á tónleikunum munu auk kóranna syngja Ragnheiður Gröndal, Bylgja Dís Gunnarsóttir og Gissur Páll Gissurarson og stjórnandi verður Oliver J. Kentish. Um 200 manns munu koma að verkefninu, en fjölmennastur er kórinn auk hljómsveitar, stjórnenda og kórstjóra.

Efniskrá tónleikana verður fjölbreytt, en á þeim verður frumflutt Lútherkantata eftir Eirík Árna Sigtryggsson, tónskáld. Höfundurinn fullyrðir að ekki hafi áður verið samin Lútherskantata og hún sé fyrsta sinnar tegundar og frumflutningur hennar því „heimsögulegur viðburður“. Verkið samanstendur af kórþáttum með samleik hljómsveitar og svo stuttum hljómsveitarþáttum á milli. Stíllinn er blanda af hefðbundnum kórsöng í sálmastíl, nútímalegum ómstreitum, dægurlagakenndum hljómum og rómantískum laglínum. Tónverkið er byggt á „95 tesum“ Lúthers, sem voru birtar 31. október árið 1517 og marka upphaf siðbótarinnar.

Æfingar kirkjukóra fyrir tónleikana hefjast á vormánuðum og er öllum kórum og söngfólki í Kjalarnessprófastsdæmi velkomið að taka þátt..