Það verður mikið um dýrðir í Grindavík þann 1. maí. Barnastarf kirkjunnar heldur upp á sumarkomu með brúðusýningunni Pétur og Úlfurinn en Bernd Ogrodnik brúðuleiklistarmaður mætir með hina bráðskemmtilegu og gullfallegu sýningu sína.
Sýningin Pétur og Úlfurinn var sett upp í Þjóðleikhúsinu og fékk hún frábæra aðsókn og toppdóma gagnrýnenda. Grindvíkingar og nærsveitungar eru hvattir til að missa ekki af þessari fallegu sýningu í kirkjunni kl. 11.
Eftir leikritið og samveruna í kirkjunni verða grillaðar pylsur og djús í boði og hoppkastali verður úti fyrir börnin.
Að sögn sr. Elínborgar Gísladóttur sóknarprests, styrkir verkalýðsfélag Grindavíkur brúðuleiksýninguna og það eru allir velkomnir.