Skip to main content

Aðventufundur presta og djákna Kjalarnessprófastsdæmis með Eiríki Guðmundssyni rithöfundi

Eftir desember 3, 2013janúar 10th, 2020Fréttir

Aðventufundur presta og djákna er fastur liður á jólaföstu Kjalarnessprófastsdæmis. Þá koma prestar og djáknar prófastsdæmisins saman og ræða prédikunarundirbúning jólanna. Venja er að fá góðan gest til fundarins og að þessu sinni er það rithöfundurinn Eiríkur Guðmundsson sem mun taka þátt í samtalinu.

Fundurinn verður haldinn þann 12. desember næstkomandi í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði. Hann hefst kl. 9:30 og lýkur kl. 12:30. Boðið verður upp á kaffisopa í upphafi fundar og léttan hádegisverð í lokin.

Dr. Gunnar Kristjánsson prófastur mun fjalla ýmis þemu sem eiga brýnt erindi á jólum. Brugðið verður upp svipmyndum úr myndlistarheiminum en einnig úr hugmyndaheimi líðandi stundar og hvort tveggja skoðað í ljósi jólaguðspjallsins. Hver er merking þess hér og nú? Hvert er brýnasta erindi prédikarans þessi jól? Einnig mun prófastur fjalla um eitt og annað sem tengist kirkjustarfinu, m.a. um helstu verkefni prófastsdæmisins sem framundan eru.

Gestur fundarins, Eiríkur Guðmundsson, er þekktur fyrir frábæra útvarpsþætti sem hafa vakið athygli að verðleikum.  Hann hefur sent frá sér nokkrar skáldsögur og er nýjasta bók hans, 1983, tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Eiríkur mun kynna bókina í stuttu máli og verður í framhaldi þess boðið upp á samtal um efnið. 1983 er samtímasaga og mun án vafa vekja líflegar umræður.