Skip to main content

Ágrip af fundi prófasts með sóknarnefndarformönnum Kjalarnessprófastsdæmis

Eftir september 23, 2013janúar 10th, 2020Fréttir

Prófastur kallaði til árlegs haustfundar með formönnum sóknarnefnda í Kjalarnessprófastsdæmi fimmtudaginn 19. september í safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ.

Á fundinum kynntiprófastur það sem framundan er í prófastsdæminu. Leiðarþing prófastsdæmisins verður haldið 16. október í Hafnarfirði. Prófastur minntist jafnframt á fjögurra alda afmæli Hallgríms Péturssonar og áréttaði að afmælishátíðir felist ekki aðeins í því að rifja upp söguna heldur í því að eiga skapandi samtali við þá sögu. Prófastur minntist einnig á komandi prédikunarseminar í Skálholti þann 6.-8. október. Áhugavert væri að heyra þar raddir leikmanna enda sé prédikunarseminarið ekki hugsað fyrir presta í þrengri skilningi heldur alla þá sem áhuga hafa.

Prófastur kynnti nýafstaðið kirkjulagaþing í Skálholti þar sem endurskoðun og umbætur á lagaumgjörð kirkjunnar var á dagskrá og gaf í kjölfarið Magnúsi Kristjánssyni, forseta kirkjuþings, orðið.

Magnús rakti formála þeirrar vinnu sem stendur yfir á endurskoðun þjóðkirkjulaganna. Kirkjuþing valdi sjö manns til að skoða þau drög sem unnið hafði verið að og kalla eftir aukinni umræðu innan kirkjunnar um endurskoðum þjóðkirkjulaganna. Æskilegt sé að breið sátt ríki um þjóðkirkjulögin áður en Alþingi fái þau til umfjöllunar.

Nefndin fékk fjóra einstaklinga til að ræða viðfangsefnið í Skálholti. Hjalta Hugason, Gunnar Kristjánsson, Sigríður Guðmarsdóttur og Lisbet Christoffersen. Pallborðsumræður fylgdu í kjölfarið. Daginn eftir voru málstofur haldnar þar sem kirkjuþingsfólk vann áfram með viðfangsefnið í hópum.

Viðhorf og skoðanir hafa breyst í þessum efnum að mati Magnúsar. Miklu máli skipti að ekki sé teflt á tvær hættur með hagsmuni Þjóðkirkjunnar til lengri tíma. Nauðsynlegt sé að kirkjan hugi að baklandi sínu þegar komi að endurskoðun þjóðkirkjulaganna á Alþingi.

Að mati Magnúsar verður að fara fram umræða um það hvað skuli vera í lögum annars vegar og hvað skuli standa í starfsreglum hins vegar. Jafnframt sé aðkallandi að mótuð sé sú hugmyndafræði sem þjóðkirkjulögin skuli byggja á og eðli kirkjunnar sem stofnunar mótast af. Kirkjan verði ekki sterk nema fólkið sem henni tilheyri taki ábyrgð á henni. Viðhorf og skoðanir sóknarfólks og forystufólks safnaðana um þessi mál þurfi að koma fram. Að baki þeirrar umræðu liggja mikilvægar spurningar um stjórnsýslukerfi kirkjunnar, eðli biskupsembættisins, hlutverk stofnana á borð við kirkjuráð, fjárveitingarvald kirkjunnar, tengsl við ríkið o.fl.

X