Skip to main content

Ágrip af Leiðarþingi Kjalarnessprófastsdæmis

Eftir október 18, 2013janúar 10th, 2020Fréttir

Leiðarþing Kjalarnessprófastsdæmis var haldið í Hafnarfjarðarkirkju þann 16. október síðastliðinn. Til þess eru boðaðir prestar, djáknar, sóknarnefndarformenn og safnaðarfulltrúar prófastsdæmisins. Leiðarþing er framhald Héraðsfundar þar sem reikningar sókna og kirkjugarða eru lagðir fram sem og starfsáætlun og fjárhagsáætlun héraðsnefndar.

Nýskipaður sóknarprestur Hafnarfjarðarkirkju, sr. Jón Helgi Þórarinsson, leiddi helgistund í kirkjunni í upphafi þingsins. Magnús Gunnarsson, formaður sóknarnefndar Hafnafjarðarkirkju stýrði fundi.

Í ávarpi sínu áréttaði Gunnar Kristjánsson, prófastur, að ekki mætti horfa frá hinum margslungna vanda sem þjóðkirkjan á við að etja í dag. Kirkjustarf gangi út á umgjörð og inntak og hvort tveggja kalli á umræðu og endurmt.

Prófastur spurði til hvers kirkjustarf væri? Kirkjustarf sé til lítils ef ekki er vandað til við boðunina í orði og verki. Í dag leiti fólk af lífsgildum og svörum við tilvistarspurningum. Í því ljósi þurfi kirkjan að horfa gagnrýnum augum á eigið starf til að bæta það og efla og til að gera það marktækt í samkeppnissamfélagi. Boðsapurinn eigi það skilið að hvergi sé gefið eftir varðandi gæði starfsins. Málið snúist um trúna sjálfa – að henni sé vegið. Er hún gjaldgeng í tækni- og vísindavæddum heimi? Hvers virði er trúin í dag? Hversu þungvæg er hún? Marx talaði um trúna sem ópíum og sá fyrir sér heim sem þyrfti ekki trú. Þrátt fyrir það hafi trúin ekki þokast út úr menningunni enda vitni sagan sjálf um gildi hennar.Hins vegar verði kirkjan og kristið fólk dæmt af verkum sínum, af verkum umhyggju og kærleika.

Prófastur áréttaði að trúin svæfi ekki heldur kalli alla til skapandi verka og brýndi fundarfólk með þeim orðum að við mótlæti yrði að bregðast eins og sagan gefi tilefni til: Með því að treysta Honum sem hefur alltaf reynst traustsins verður.

Fresta varð framlagningu á reikningum sókna og kirkjugarða af óviðráðanlegum ástæðum og bíður það næsta héraðsfundar.

Prófastur gerði grein fyrir starfsáætlun héraðsnefndar og í kjölfarið gerði Ásbjörn Jónsson, gjaldkeri héraðsnefndar og fulltrúi í kirkjuráði, grein fyrir fjárhagsáætlun nefndarinnar. Jafnframt notaði Ásbjörn tækifærið til að gera grein fyrir þeirri stöðu sem uppi er varðandi fjármál Þjóðkirkjunnar.

Að kvöldverði loknum flutti sr. Hans Guðberg Alfreðsson framsögu fyrir hönd Æskulýðsnefndar Kjalarnessprófastsdæmis um stöðu barna- og æskulýðsstarfs. Almennt séð stendur barna- og æskulýðsstarf prófastsdæmisins vel. Engu að síður sé ljóst er að kirkjan þurfi að halda vöku sinni þegar kemur að þessum mikilvæga málaflokki. Mörg sóknarfæri séu fyrir hendi en fyrirstöður eru engu að síður fleiri en áður var. Í kjölfarið fylgi greinargóð kynning á landsmóti æskulýðsfélaga sem haldið verður í Reykjanesbæ 25.-27. október næstkomandi. Landsmótið er árlegur viðburður í æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar og stefnir í fjölmennasta mót fram til þess.

Leiðarþinginu lauk með erindi Reynis Sveinssonar, formanns Hvalsnessóknar, sem leiddi fundarfólk á skemmtilegan hátt inn í heim sr. Hallgríms Péturssonar, prests á Hvalsnesi.

X