Skip to main content

Bessastaðasókn fékk viðurkenningu frá Eurodiaconia

Eftir september 19, 2011janúar 10th, 2020Fréttir

Á degi kærleiksþjónustunnar, 18. september, tók Bessastaðasókn í Kjalarnessprófastsdæmi á móti viðurkenningu fyrir víðtækt og öflugt sjálfboðaliðastarf. Evrópsku samtökin Eurodiaconia, sem þjóðkirkjan er aðili að, stóð að verðlaununum sem fulltrúar úr hópi sjálfboðaliða í Bessastaðasókn veittu viðtöku.

Æskulýðsdagurinn í Bessastaðakirkju

Dagur kærleiksþjónustunnar
Dagur kærleiksþjónustunnar hefur verið haldinn í þjóðkirkjunni síðasta áratuginn eða svo. Hann er til að minna á þjónustu kirkjunnar í samfélaginu og lyfta upp guðfræði díakóníunnar sem mætir þörfum náungans með skilyrðislausri elsku. Í ár er dagur kærleiksþjónustunnar helgaður sjálfboðaliðum og sjálfboðinni þjónustu. Það þema helst í hendur við Evrópuár sjálfboðastarfs sem haldið er á lofti innan Evrópusambandsins árið 2011.

Þjóðkirkjan gerðist aðili að Eurdiaconia, sem eru regnhlífarsamtök kirkna og félaga sem sinna kærleiksþjónustu í Evrópu, árið 2007. Samtökin reka skrifstofu í Brussel, en stór hluti af starfi þeirra er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur Evrópusambandsins á sviði velferðarmála í löndum Evrópu. Samtökin eiga sæti í ráðgjafarnefnd um stefnu í félagsmálum innan Evrópusambandsins.

Til góðs fyrir samfélagið
Bessastaðasókn hefur í mörg ár byggt upp öfluga þjónustu sjálfboðaliða á ólíkum sviðum kirkjustarfsins. Yfir 60 manns eru virkir sjálfboðaliðar í sókninni og koma að helgihaldi, tónlistariðkun, fræðslu, stjórnun, kærleiksþjónustu og barna-, foreldra- og æskulýðsstarfi. Launaðir starfsmenn sóknarinnar eru prestur, djákni og organisti sem ásamt sjálfboðaliðum mynda öfluga liðsheild kirkjunnar á Álftanesi til góðs fyrir samfélagið.

Fulltrúar úr hópi sjálfboðaliða veittu viðurkenningu Eurodiaconia viðtöku í kirkjukaffi að lokinni útvarpsguðsþjónustu í Bessastaðakirkju á degi kærleiksþjónustunnar.