Skip to main content

Biskup heimsækir stofnanir samfélagsins

Eftir apríl 10, 2013janúar 10th, 2020Fréttir

Í vísitasíunni sem nú stendur yfir, hefur Agnes biskup heimsótt söfnuði, kirkjur, safnaðarheimili sem og fyrirtæki og stofnanir á Suðurnesjum. Í upphafi vikunnar fengu Agnes og föruneyti hennar tækifæri til að kynnast nánar starfsemi nokkurra stofnanna sem sinna velferð og almannaþjónustu Í Keflavík.

Endurbætur á kirkjuskipi Keflavíkurkirkju

Ljósmynd úr Keflavíkurkirkju

LÖGREGLAN Á SUÐURNESJUM

Biskup heimsótti m.a. embætti Lögreglunnar á Suðurnesjum í flugstöð Leifs Eiríkssonar í Reykjanesbæ. Þar kynnti Sigríður Guðjónsdóttir lögreglustjóri almennar áherslur Lögreglunnar á Suðurnesjum sem auk þess að tryggja að rekstur sé innan fjárheimilda, snúa að því að auka öryggi íbúa, efla almannavarnir og áætlanagerð í umdæminu, vinna gegn sölu og neyslu fíkniefna í umdæminu, auknu umferðaröryggi, fækka ofbeldisbrotum í umdæminu, forvörnum, vinnu eftir nýjum áherslum í heimlisofbeldismálum, faglegum og vönduðum rannsóknum í kynferðisbrotamálum, eftirliti með skipulagðri glæpastarfsemi, svo sem mansali og smygli á fólki, og styrkja farþegagreiningu í þeim tilgangi að sporna við ólögrlegri umferð til og frá landinu.

Biskupi voru kynnt sérstaklega málaflokkar um nýtt verklag í heimilisofbeldismálum, skipulag almannavarna og starf í kringum hælisleitendur, en fjöldi hælisleitenda á Íslandi hefur aukist mikið á síðustu misserum. Einnig var farið yfir aðgerðir í þágu símenntunar og þjálfunar starfsfólks embættisins til að bregðast við breytingum í samfélagsgerðinni og aukinni fjölmenningu.

HEILBRIGÐISSTOFNUN SUÐURNESJA

Biskup Íslands heimsótti síðan Heilbrigðisstofnun Suðurnesja ásamt fylgdarfólki. Þar tók á móti biskupi Þórunn Benediktsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunarsviðs og leiddi staðarskoðun og kynningu á húsnæði og starfsemi stofnunarinnar. Biskupi var boðið til kaffis og sérstakrar kynningar sem Konráð Lúðvíksson annaðist. Konráð leiddi viðstadda inn í sögu samstarfs Heilbrigðisstofnunarinnar og kirkjunnar, sem hófst í kringum frumkvöðlastarf HSS við fósturlát og andvana fæðingar. Konráð minnti á að það sem þykir sjálfsagt í dag í þessu sambandi, var óþekkt fyrir ekki svo löngu síðan. Einnig rifjaði Konráð upp nýtingu kapellunnar á HSS, sem sinnti mikilvægu hlutverki í lífi bæjarbúa.

BÆJARSKRIFSTOFUR REYKJANESBÆJAR

Í hádeginu fór biskup á Bæjarskrifstofur Reykjanesbæjar og snæddi hádegisverð með starfsfólki þar. Einnig voru á staðnum fulltrúar fimm stórra framboða til alþingiskosninganna í vor. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Árni Sigfússon, bauð biskup og fjöruneyti velkomin og gaf síðan orðið Hjördísi Kristinsdóttur sem kynnti kærleiksþjónustu Keflavíkurkirkju í máli og myndum. Hjördís rakti sögu Velferðarsjóðs Suðurnesja og verkefni sem Keflavíkurkirkja hefur staðið fyrir í velferðar- og valdeflingarskyni í þágu samfélagsins. Sérstaklega gerði hún grein fyrir starfseminni í Gömlu Grágás, miðstöð ungs fólks.

Góðar umræður sköpuðust um verkefni kirkjunnar og áhersluna á kærleiksþjónustu í Keflavíkurkirkju.