Skip to main content

Dásamlegt kvöld í Víðistaðakirkju

Eftir febrúar 26, 2012janúar 10th, 2020Fréttir

Kærleikshópur Ástjarnarkirkju, sem er vísir að kvenfélagi, stóð fyrir stórkostlegum minningartónleikum í Víðistaðakirkju fimmtudaginn 2. febrúar um félaga úr kór Ástjarnarkirkju, Arndísi Þórðardóttur, sem lést langt um aldur fram úr krabbameikni síðast liðið haust. Um fjögur hundruð manns voru í kirkjunni þetta kvöld og allur ágóði af miðasölu rann til Krabbameinsfélags Íslands.

Þetta var sannkölluð tónlistarveisla sem stóð í tæplega tvær og hálfa klukkustund. Tónlistin naut sýn vel í kirkjunni enda hljómburðurinn góður. Kærleiksandinn var eftirminnilegur og allir yfir sig ánægðir með hve vel tókst til. Heill saumaklúbbur úr Vogum á Vatnsleysuströnd gerði sér dagamum, fór út að borða og skellti sér á tónleikana. Margar þeirra eru virkar í kirkjustarfi Kálfatjarnarsafnaðar og voru eftir tónleikana fullar af eldmóði að vinna að eflingu starfsins í söfnuðinum sínum.

Margar helstu stórstjörnur íslensks tónlistarlífs komu fram í tónleikunum og lögðu fram krafta sína endurgjaldslaust. Meðal þeirra sem komu fram voru Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú), Jóhann Friðgeir Valdimarsson, Sigríður Beinteinsdóttir, Bjarni Arason, Svavar Knútur, Svenni Þór (Regína Ósk kona hans veiktist og forfallaðist), Jógvan Hansen, Loftur Erlingsson, Elingur Snær Loftsson, Karlakór Selfoss og síðast en ekki síst kirkjukór Ástjarnarkirkju. Hljómsveit Hjartar Howser sá um allan undirleik.

Mörg fyrirtæki löguðu málinu lið og ýmsir gáfu sérstakar gjafir til styrktar málefninu sem safnað var fyrir en ætla má að um 800 þúsund krónur hafi safnaðst þetta kvöld. Í lok tónleikanna þökkuðu fulltrúar fjölskyldu Arndísar fyrir ógleymanlega stund og þann heiður og kærleika sem minningu hennar var sýndur með þessu flotta framtaki. Forstjóri Krabbameinsfélagsins þakkaði fyrir hönd síns félags.

Áræði og dugnaður þeirra kvenna sem létu sér detta í hug að gera þennan viðburð að veruleika er aðdáunarverður og sýnir hvað hægt er að gera í starfi kirkjunnar. Einu fjármunirnir sem Ástjarnarsöfnuður lagði til var ein blaðaauglýsing.

Vegna skorts á húsnæði gat Ástjarnarsöfnuður ekki haldið tónleikana í eigin kirkju.

X