Skip to main content

Frelsið í fókus

Eftir október 22, 2012janúar 10th, 2020Fréttir

Um fjörutíu prestar, guðfræðingar og guðfræðinemar tóku þátt í tveggja daga prédikunarseminari í Skálholti 7.-9. október. Þetta var tíunda prédikunarseminarið sem Kjalarnessprófastsdæmi stendur fyrir, með það að markmiði að auka þekkingu og færni presta til að takast á við þetta mikilvægasta hlutverk sitt, sem er að prédika fagnaðarerindið í samtímanum.

Þýski prófessorinn Wilhelm Gräb flutti fjóra fyrirlestra um prédikunarfræði og tók þátt í prédikunarvinnustofu. Gräb er prófessor í praktískri guðfræði og hefur unnið mikið með prédikunina í ljósi túlkunarfræði. Það er ekki síst fyrir tilstuðlan prédikunarseminars Kjalarnessprófastsdæmis að nýjustu straumar í faginu komast inn í umræðuna um prédikun í íslensku kirkjunni.

Annar mikilvægur hluti af prédikunarseminari Kjalarnessprófastsdæmis hefur verið að hlýða á prédikanir íslenskra presta og gagnrýna þær. Fjórir prestar fluttu prédikanir út frá biblíutextum um frelsið. Allar þessar prédikanir voru vandaðar og góðar, og fjölluðu um frelsið í ljósi reynslu manneskjunnar.

Sérstakur gestur prédikunarseminarsins í ár var innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, sem flutti einlæga ræðu um afstöðu sína til kristinnar trúar og þjóðkirkjunnar. Í orðum hans speglaðist mynd af þjóðkirkju sem er hluti af samfélaginu, breið og opin, alltaf til staðar, ábyrg og samkvæm sjálfri sér.

Í samtali við ráðherra lögðu prestar ríka áherslu á að ráðherrann gerði það sem í hans valdi stæði til að standa vörð um grundvöll starfsemi kirkjunnar um allt land – og að láta ekki þennan mikilvæga málaflokk verða hornreka og afskiptan í kerfinu.