Skip to main content

Fundargerð héraðsfundar 2013

Eftir mars 19, 2013janúar 10th, 2020Fréttir

Hér má lesa fundargerð héraðsfundar sem fór fram þriðjudaginn 19. mars á Álftanesi.

Héraðsfundur Kjalarnessprófastsdæmi
, haldinn 19. mars 2013 í íþróttahúsi Álftaness, í Bessastaðasókn

Vísitasía í Bessastaðakirkju
Dagskrá hófst kl. 17.45 með helgistund í umsjón sr. Hans Alfreðs Guðbergssonar og Margrétar Gunnarsdóttur djáknakandidats. Að henni lokinni ávarpaði Elín Jóhannsdóttir, formaður sóknarnefndar Bessastaðasóknar, fundinn og bauð fundargesti velkomna.

Þá tók prófastur, dr. Gunnar Kristjánsson, til máls, og stakk hann upp á Magnúsi E. Kristjánssyni sem fundarstjóra. Fundurinn samþykkti það og tók Magnús við stjórn fundarins. Magnús stakk upp á sr. Kristínu Þórunni Tómasdóttur sem ritara héraðsfundarins og var það samþykkt.

Skýrslur og reikningar

Prófastur flutti þá yfirlitsræðu sína sem einnig fylgdi fundargögnum.

Reikningar héraðssjóðs voru kynntir af gjaldkera héraðssjóðs, Ásbirni Jónssyni, en reikningarnir fylgdu sömuleiðis gögnum sem dreift var á fundinum.

Lögð var fram tillaga um að liðunum Reikningar sókna og kirkjugarða lagðir fram, Starfsáætlun héraðsnefndar lögð fram og Fjárhagsáætlun héraðsnefndar lögð fram, yrði frestað til leiðarþings. Var það samþykkt.

Fundarstjóri vakti athygli á skýrslu héraðsprests og skýrslu Æskulýðsnefndar Kjalarnessprófastsdæmis sem var dreift á fundinum.

Fyrirspurnir og umræður

Fundarstjóri opnaði þá fyrir fyrirspurnir og umræður um yfirlitsræðu prófasts, reikninga héraðssjóðs, skýrslu héraðsprests og æskulýðsnefndar.

Fyrstur tók til máls, sr. Sigurður Grétar Sigurðsson og kynnti Æskulýðsnefnd þjóðkirkjunnar sem starfar samkvæmt starfsreglum.

Þá kvaddi sér hljóðs Reynir Sveinsson, sem sannarlega er formaður sóknarnefndar Hvalsnesssóknar, þótt annað hafi komið fram í ræðu prófasts.

Sr. Sigurður Grétar sté aftur í pontu og vakti athygli á viðburði á vegum ÆNK og Skógarmanna, sem er söngmót fyrir áhugasama unglinga.

Elínborg Gísladóttir spurði um lækkun framlaga á milli ára undir liðnum námskeið og fræðsla, sem kemur fram í reikningum héraðssjóðs og vildi einnig fá að vita um almennar viðmiðanir í því hvaða verkefni hlytu styrki úr héraðssjóði. Þá kom hún með ábendingar um að skýrslu héraðsprests myndi fylgja nákvæmt yfirlit um hvar héraðsprestur leysir af hverju sinni.

Gjaldkeri svaraði fyrirspurnum um reikninga.

Þá bar fundarstjóri reikninga héraðssjóðs undir samþykki fundarins. Reikningarnir voru samþykktir án athugasemda.

Starfsskýrslur sókna

Undir liðnum starfsskýrslur sókna flytja fulltrúar sóknanna munnlegt yfirlit um helstu framkvæmdir sóknanna á liðnu ári og stikla á stóru í starfinu.

Frá Reynivallasókn talaði Guðbrandur Hannesson.
Frá Brautarholtssókn talaði Ásgeir Harðarson.
Frá Lágafellssókn talaði sr. Ragnheiður Jónsdóttir.
Frá Bessastaðasókn talaði Elín Jóhannsdóttir.
Frá Garðasókn talaði Magnús E. Kristjánsson.
Frá Víðistaðasókn talaði Gunnar Hólmsteinsson.
Enginn fulltrúi var frá Hafnarfjarðarsókn.
Frá Ástjarnarsókn talaði Heiða Björk Ingvarsdóttir.
Frá Kálfatjarnarsókn talaði Símon Rafnsson.
Frá Grindavíkursókn talaði Margeir Jónsson.
Enginn fulltrúi var frá Kirkjuvogssókn.
Frá Ytri-Njarðvíkurssókn talaði Kristján Friðjónsson.
Frá Keflavíkursókn talaði sr. Skúli Ólafsson.
Frá Útskálasókn talaði Kristjana Vilhjálmsdóttir.
Frá Hvalsnessókn talaði Reynir Sveinsson.

Kosningar

Þá fóru fram eftirfarandi kosningar:

Kosning leikmanna, aðalmanns og varamanns til héraðsnefndar til tveggja ára.

Ásbjörn Jónsson og Elín Jóhannsdóttir gáfu kost á sér til áframhaldandi setu og voru þau kosin með lófataki.

Kosning skoðunarmanna til tveggja ára og tveggja til vara.

Kosnir voru Kári Geirlaugsson og Gunnar Hólmsteinsson.

Kosning aðalmanns og varamanns til fulltrúaráðs Hjálparstarfs kirkjunnar til tveggja ára.

Erla Guðmundsdóttir, Keflavíkursókn og Ásgeir Harðarsson, Brautarholtssókn voru kjörin í fulltrúaráð Hjálparstarfs kirkjunnar.

Önnur mál.

Engin önnur mál bárust fundinum. Þar með var lögbundin dagskrá tæmd og fundarstjóri þakkaði fyrir sig.

Kl. 19.40 var gengið til kvöldverðar.

Að máltíð lokinni hófst síðari hluti fundarins sem var helgaður vísitasíu biskups Íslands, Agnesar M. Sigurðardóttur, í Kjalarnessprófastsdæmi. Biskup ávarpaði fundinn, kynnti viðhorf sín til starfsins og hlutverk biskupsvísitasíunnar og kynnti samstarfsfólk sitt á Biskupsstofu sem var með henni í för. Það voru Árni Svanur Daníelsson, upplýsingafulltrúi, Þorvaldur Víðisson, biskupsritari, Sigríður Dögg Geirsdóttir, fjármálastjóri Biskupsstofu og Ragnheiður Sverrisdóttir, verkefnisstjóri á kærleiksþjónustusviði.

Góð umræða skapaðist í kringum málefni vísitasíunnar. Að endingu tók prófastur til máls og hvatti kirkjufólk til samstöðu og samstarfs á þessum tímamótum í lífi kirkjunnar þegar nýr biskup kemur til starfa. Þakkaði prófastur fundarmönnum fyrir góðan héraðsfund og sleit fundi þegar klukkan var 21.00.