Skip to main content

Gleði og gaman á fermingarhátíð í Hafnarfirði og Garðabæ

Eftir janúar 31, 2018janúar 10th, 2020Fréttir

Í fyrsta skiptið héldu þjóðkirkjusöfnuðurnir í Hafnarfirði og Garðabæ sameiginlega fermingarhátíð sunnudaginn 28. janúar og hana sóttu á fjórða hundrað fermingarbörn ásamt fermingarfræðuum og prestum.  Svo fjölmenn var hátíðin að það þurfti þrjár kirkjur til að rúma alla dagskrána og voru þær allar iðandi af lífi og glöðum fermingarbörnum.

Dagskrá fyrir pilta fór fram í Hafnarfjarðarkirkju og dagskrá fyrir stúlkur í Vídalínskirkju, en svo var sameiginleg kvöldvaka í Víðistaðakirku. Yfirskrift hátíðarinnar var „Betri eru tveir en einn“ (Prédikarinn 4:9) og þemað var vinátta og kærleikur. Hátíðin hófst með samhristing og svo tóku fræðslan við. Góðir gestir, Brynja Dan Gunnarsdóttir og Guðjón Reykdal Óskarsson komu í heimsókn og ræddu við börnin um  líf sitt og hvernig við sýnum vinum okkar stuðning í verki. Einnig var horft á stuttmynd um óvenjulega vináttu, farið í leiki sem reyna á traust og hvernig við brjótum ísinn í samskiptum. Þá var frjáls tími sem sumir nýttu til að slaka á, spila eða taka þátt í brandarakeppni. Í kvöldmat var boðið var upp á pítsur og runnu þær ljúflega niður hjá þessum stóra hópi. Svo var hópunum ekið í rútum í Víðistaðakirkju, þar sem fram fór sameiginleg kvöldvaka. Hljómsveitin Sálmari tók á móti þeim með fjörugri tónlist, sungið og farið í leiki. Einnig kom Jón Jónsson, tónlistarmaður, og tók nokkur lög með fermingarbörnunum. Hátíðina sóttu fermingarbörn frá Ástjarnar-, Bessastaða-, Hafnarfjarðar-, Vídalíns- og Víðistaðakirkjum.