Skip to main content

Gleði, vinsemd en minni messusókn

Eftir júní 11, 2013janúar 10th, 2020Fréttir

Vorfundur presta og djákna í ár helgaðist nýlokinni vísitasíu biskups Íslands, sem hefur staðið yfir í tæpan ársfjórðung. Hér má lesa fundargerð sem var tekin saman á samverunni sem var í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík. 
Grindavíkurprestakall - vísitasía biskups Íslands

Mánudaginn 10. júní 2013, kl. 11 voru prestar og djáknar í Kjalarnessprófastsdæmi staddir á fundi í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík, ásamt biskupi Íslands og biskupsritara. Vígslubiskup Skálholtsstiftis boðaði forföll.

Í upphafi las Kristín Þórunn Tómasdóttir héraðsprestur ritningartexta og leiddi viðstadda í bæn.

Þá tók prófastur til máls og rakti dagskrá fundarins sem er í tveimur meginhlutum; mat og viðbrögð við biskupsvísitasíu annars vegar og hins vegar málefni prófastsdæmisins.

Prófastur fór að því loknu yfir tilgang biskupsvísitasíunnar í sögu og samtíð og rakti hlutverk hennar eins og hún hefur þróast í þjóðkirkjunni. Prófastur þakkaði biskupi og sérstaklega biskupsritara fyrir samstarf og gott skipulag sem skilaði sér í góðum anda í vísitasíunni allri, sem náði frá miðjum mars og lauk í gær.

Þá tók til máls biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir en hún tók saman reynsluna af því að heimsækja söfnuði og samfélög í prófastsdæminu. Biskup sagði þetta hafa verið mjög skemmtilegan tíma, eignaskrár og slíkt væru í góðu skikki af hálfu prófasts, og m.a. þess vegna hefði hún getað notað tímann á meðal fólksins, í heimsóknum á vinnustaði og stofnanir.

Agnes nefndi nokkur atriði sem mikilvægt er að vinna frekar að í söfnuðum á svæðinu. Eitt er að rýna í ástæður þess hvers vegna messusókn hefur hrakað almennt. Aðstæður presta og prestsfjölskyldna eru biskupi hugleiknar sömuleiðis sem og starfsaðstæður presta og þjónustuálag. Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir fer í námsleyfi næsta vetur og hefur biskup ákveðið að héraðsprestur komi inn í þá afleysingu og þjóni í söfnuðinum.

Þá var farið hringinn í kringum borðið og prestar lýstu reynslu sinni af vísitasíunni. Almenn ánægja var með aðkomu biskups og þá uppörvun og gleði sem fylgdi heimsóknum hennar. Eitt af því sem mæltist sérstaklega vel fyrir voru fundir biskups með sóknarnefndum. Einnig var tekið til með hve mikilli jákvæðni allir aðilar mættu óskum um þátttöku í dagskrá vísitasíunnar.

Meðal þess sem kom til umræðu sérstaklega var starfsálag presta og skipulag kirkjustarfsins. Prófastur lagði áherslu á að boðun orðsins í helgihaldi og embættisverkum sé grunnþjónusta prestsins og safnaðarstarfið verði að hvíla á herðum leikmanna. Í umræðum kom þó fram að reynslan sýnir að presturinn er samt sem áður lykilstarfsmaður sem ber uppi stjórnun og hvatningu, auk allra sinna verka. Þetta er eitt af viðvarandi vandamálum í kirkjustarfinu sem erfitt virðist vera að finna lausn á. Annar stór vandi kirkjunnar snýr að menntun og símenntun presta, sem gerir þá hæfari að fást við síbreytilegt og krefjandi starf.

Að lokinni yfirferð fór prófastur yfir nokkur sameiginleg verkefni á vegum prófastsdæmisins. Á döfinni eftir sumarfrí er m.a. ráðstefna um kirkjurétt í Skálholti í september, prédikunarseminar í Skálholti og útgáfa á erindum frá fyrri prédikunarseminörum sem ber heitið Orðið er laust.

Fundi lauk með léttri máltíð í sameiningu, sem hófst kl. 13.