Skip to main content

Gott kvöld í Keflavíkurkirkju

Eftir janúar 11, 2011janúar 10th, 2020Fréttir

Miðvikudaginn 12. janúar hefst fyrirlestraröð í Keflavíkurkirkju undir yfirskriftinni, Gott kvöld í kirkjunni. Söfnuðirnir í Keflavík, Útskálum, Hvalsnesi og Grindavík standa að þessari dagskrá, en tilgangur hennar er að skapa vettvang fyrir sjálfboðaliða við söfnuðina til fræðslu, samfélags og vaxtar. Kjalarnessprófastsdæmi styrkir verkefnið.

Keflavíkurkirkja

Fyrirlestrarnir standa frá kl. 20 – kl. 22 og fjalla um efni sem tengist kirkju og kristni með margvíslegum hætti. Má þar nefna.

  • Menning og listir
  • Siðfræði og tengsl við þjóðlífið
  • Sjálfseflingu og leiðtogasýn
  • Opna kirkjusýn

Þátttökukirkjan í brennidepli
Á fyrstu samverunni 12. janúar, ræða dr. Gunnar Kristjánsson og sr. Erla Guðmundsdóttir um verkefnið „Þátttökukirkjan“. Þau segja frá ferð til Hannover þar sem kirkjuleg miðstöð sjálfboðaliðastarfs var sótt heim. Greina þau frá þeirri sýn sem unnið er eftir en á þessum vettvangi hefur mikil þróun átt sér stað á vegum sjálfboðaliða. Páll Fanndal, sjálfboðaliði við Keflavíkurkirkju opnar samveruna og lýsir því hvernig sú sjálfboðna þjónusta sem hann hefur innt af hendi, hefur auðgað líf hans.

Næst ríður á vaðið Árni Bergmann rithöfundur en 19. janúar flytur hann erindið: „Glíman við guð og ásökunin um skaðsemi trúarbragða.“ Þar ræðir Árni þá skoðun sem útbreidd er orðin í samfélagi okkar um að „allt sé trúarbrögðum að kenna“ og ef þau væru ekki þá mundi öllum vel farnast.

26. janúar flytur Hörður Áskelsson söngmálastjóri þjóðkirkjunnar erindið „Nýsköpun í sálmagerð. Sálmabókarnefnd og nýir sálmar. Nútíminn og hefðin“. Þar verður greint frá nýjustu straumum í sálmagerð en mikil gróska hefur verið á þeim vettvangi undanfarin ár. Fluttur verður nýr sálmur og gerir Hörður grein fyrir uppbyggingu hans og því hvernig hefðin og nútíminn mætast í texta hans og tónum.

Sérstök samkoma verður sunnudaginn 6. febrúar í tengslum við Velferðarþing kirkjunnar. Þar ræðir Edda Heiðrún Backman um efnið „Innri styrkur í mótlæti“. Edda Heiðrún glímir við MND sjúkdóminn. Mitt í mótlætinu hefur hún sýnt ótrúlegan styrk. Frásögn hennar lætur engan ósnortinn.

9. febrúar ræðir dr. Hjalti Hugason um ríki og kirkju. Hjalti er prófessor í kirkjusögu við Háskóla Íslands og hefur fjallað talsvert um þau flóknu tengsl sem ríkja á millir ríkis og kirkju og verða aldrei skilin til fulls nema í ljósi sögunnar.

16. febrúar ræða sr. Elínborg Gísladóttir og Sigurbjörg Þorgrímsdóttir Centering prayer og Lectio Divina. Sr. Elínborg er sóknarprestur í Grindavíkurkirkju og Sigurbjörg Þorgrímsdóttir starfar við Lágafellssókn. Þær hafa um árabil lagt sjálfar stund á kristna íhugun og tekið námskeið í þeim fræðum á erlendri grundu.

23. febrúar talar dr. Sigrún Gunnarsdóttir og flytur erindið „Þjónandi forysta í starfi sjálfboðaliða“. Sigrún er lektor í hjúkrunarfræði við HÍ en hún leiðir starfshóp um þjónandi forystu á Íslandi. Þjónandi forysta er ákveðin leiðtogasýn sem byggir á traustum siðferðislegum grunni, er afar innihaldsrík og leiðir til mikils árangurs.

Eitt megineinkenni þessa fyrirkomulags er að sjálfboðaliðarnir verða sjálfir í forgrunni. Þeir munu bjóða fólk velkomið og stýra umræðum. Prestar og starfsfólk verða þeim til aðstoðar, hvatningar og stuðnings en markmiðið er að vekja enn frekari athygli á þeim góða hópi sem fyllir raðir sjálfboðaliða við kirkjurnar. Þarna er þeim skilaboðum miðlað áfram að söfnuðurinn er kjarni hinnar kirkjulegu þjónustu.

Að fyrirlestri loknum er boðið upp á kaffi og þá verða almennar umræður.

Frekari upplýsingar veitir sr. Skúli Sigurður Ólafsson, sóknarprestur í Keflavíkurkirkju.