Skip to main content

Guðfræði krossins snýst um eftirfylgd

Eftir apríl 2, 2014janúar 10th, 2020Fréttir

Stóru þemu bænadaga og páska eru eftirfylgdin við Jesú og að fylgja dæmi hans.  Prestar og djáknar í Kjalarnessprófastsdæmi hittust á prédikunarundirbúningsfundi í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju í vikunni. Löng hefð er fyrir því í prófastsdæminu að undirbúa sérstaklega prédikanir bænadaga og páska á slíkum fundi. Bænadagar og páskar eru krefjandi tími fyrir prestana sem þurfa að miðla boðskapi daganna inn í samtíma sem oft er með hugann við aðra hluti.

Dr. Gunnar Kristjánsson prófastur flutti erindi sem hann nefndi Theologia crucis og trú upprisunnar. Atburðir dymbilvikunnar leiða t.d. hugann að þeim sem líða og þjást en er ekki komið til hjálpar. Allt of oft erum við í hlutverki áhorfenda að þjáningu annarra í stað þess að koma til hjálpar þeim sem þurfa. Fyrirmyndir hinna kristnu eru þau sem fylgja dæmi Jesú sjálfs og leggja allt í sölurnar – eins og hann. Þannig er guðfræði krossins það að svara kölluninni til að ganga sömu leið og Jesús.

Dæmi um slíkar fyrirmyndir er Elísabet Käsemann, ung þýsk kona, sem starfaði meðal örsnauðra í Argentínu og var meðal þúsunda sem hurfu og voru pyntaðir og myrtir af herforingjastjórninni vegna baráttu fyrir mannúð. Annað dæmi er presturinn Dietrich Bonhoeffer sem var handtekinn og tekinn af lífi fyrir aðild sína að tilræði gegn Hitler.

Mikilvægt er að stunda guðfræði út frá reynslu manneskjunnar, trúin kviknar af reynslunni. Þetta á ekki síst við um trú upprisunnar. Gunnar íhugaði þrjú myndverk sem túlka og miðla slíkri trú. Tilvísanir í Emmausgöngu lærisveinanna, þegar Jesús upprisinn slæst í för með þeim og gengur með þeim, eru þekktar og að mörgu leyti skiljanlegar þegar kemur að trú upprisunnar. Þar er það reynsla lærisveinanna af því að ganga með Jesú sem fær þá til að þekkja Jesú upprisinn.

Altaristaflan í Borgarkirkjunni í Wittenberg, þar sem Lúther prédikaði oft, miðlar einnig trú upprisunnar.  Þar er nærvera Jesú túlkuð inn í líðandi stund, með því að hann er settur mitt á milli þekktra andlita úr borgarlífinu í Wittenberg sem eiga saman síðustu kvöldmáltíðina.

Stóru þemu bænadaga og páska eru því eftirfylgdin og að ganga sömu leið og Jesú. Við það glíma nú prestarnir í Kjalarnessprófastsdæmi að miðla og koma til skila í prédikunum sínum þegar sá tími rennur upp.