Skip to main content

Hátíðartónleikar og Lútherskantata

Eftir október 23, 2017janúar 10th, 2020Fréttir

Um 200 manns munu koma að hátíðartónleikum sem Kjalarnessprófastsdæmis stendur fyrir í tilefni 500 ára siðbótarafmælisins og verða í Víðistaðakirkju laugardaginn 28. október og í Hljómahöllinni 29. október og hefjast kl. 16:00. Fjölbreytt efnisskrá og frumflutningur Lútherskantötu eftir tónskáldið Eirík Árna Sigtryggsson. Verum öll hjartanlega velkomin.

Fjölmennastur er samkórinn og Sinfóníuhljómsveita áhugamanna auk einsöngvara. Ragnheiður Gröndal mun ásamt kórfólkinu syngja sálminn sinn Lifandi vatnið og einsöngvarar í Lútherskantötunni eru Bylgja Dís Gunnarsdóttir og Gissur Páll Gissurarson. Stjórnandi tónleikanna er Oliver J. Kentish. Í samkórnum syngja félagar úr kirkjukórum Keflavíkur-, Njarðvíkur-, Grindavíkur-, Víðistaða-, Bessastaða-, Vídalíns- og Lágafellskirkju.

Að sögn tónskáldsins hefur ekki áður verið samin Lútherskantata, hún sé fyrsta sinnar tegundar og frumflutningur hennar því „heimssögulegur viðburður.“

Miðaverð er 2.000.- kr. og frítt fyrir 18 ára og yngri. Hægt að kaupa miða við innganginn eða á Tix.is:

Þann 31. október n.k. eru 500 ár síðan Lúther negldi 95 greinar sínar á Hallarkirkjuna í Wittenberg, þar sem hann mótmælti sölu aflátsbréfa kaþólsku kirkjunnar. Það markaði upphaf siðbótarinnar, sem hefur haft mikil áhrif ekki aðeins á íslenska kirkju og sið, heldur sögu, menningu, tungumál og stjórnskipun á Íslandi. Til að fagna þessum merku tímamótum stendur Kjalarnessprófastsdæmi fyrir hátíðartónleikunum.